Umgengni um nytjastofna sjávar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:14:24 (3283)

2000-12-13 14:14:24# 126. lþ. 47.14 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv. 161/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:14]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég stend að þessu nál. frá sjútvn. en hef fyrirvara við það og vil aðeins gera grein fyrir því að hverju hann lýtur.

Í fyrsta lagi segir hér að við séum að leita nýrra leiða með þessari lagasetningu. Ég tel reyndar vafasamt að við séum beinlínis að leita nýrra leiða með þessari framsetningu. Hingað til hafa allar aðgerðir til þess að hamla brottkasti og bæta umgengni um nytjastofna sjávar einmitt verið í þá veru að setja strangari viðurlög og herða eftirlit.

[14:15]

Miðað við þær skýringar sem við fengum frá mönnum í sjútvrn. er ljóst að menn telja það hugsanlega geta orðið til bóta að setja þetta ákvæði inn, að Fiskistofa skuli setja menn um borð í skip og geti haft þá þar í sjö daga á sinn kostnað. Ef talin er síðan ástæða til að hafa þá um borð áfram þá verði það á kostnað útgerðarinnar. Talið er að þetta ákvæði geti haft áhrif til að að bæta umgengni um auðlindina og minnka brottkast. Auðvitað er sjálfsagt að leyfa mönnum að reyna það og vera kann að í textanum felist einhver fælingaráhrif sem bætt gætu ástandið. Á það skal ég ekki leggja dóm, reynslan hlýtur að skera úr um það.

Samt sem áður erum við enn á sömu braut og förum refsingarleiðina vegna þess að kostnaðurinn færist yfir á útgerðina hafi skip hennar afbrigðilega aflasamsetningu. Að vísu er umdeilanlegt hvað telst afbrigðileg aflasamsetning. Aflasamsetning á milli tveggja skipa getur verið misjöfn án þess að neitt sé óeðlilegt við það. Það mundi væntanlega koma í ljós á þeim sjö dögum eða róðrum sem mönnum er ætlað að fylgjast með, ef þeir telja þurfa sjö veiðiferðir til að skýra málin. Þó að heimildin hljóði upp á þetta margar veiðiferðir þá er ekki þar með sagt að hana þurfi að nýta til fulls.

Ég vil hins vegar vekja athygli á hinu sem iðulega hefur verið nefnt en aldrei verið gert, að gera tilraun til að leiða í ljós hvaða vandamál er við að fást. Við höfum heyrt sögur af því hvernig brottkast á sér stað og af hvaða orsökum. Ég held að enginn geti mótmælt því að kvótakerfi, hvar sem þau eru í veröldinni, hafa innbyggðan hvata til að menn velji úr aflanum. Ég held að flestallir sem rætt hafa um fiskveiðistjórn, bæði hér á Íslandi og annars staðar, hafi viðurkennt að yfirleitt fylgi kvótakerfum tilhneiging til að velja úr aflanum.

Kvótakerfi eins og við erum með, sem ég kalla oftast kvótabraskkerfi með frjálsu framsali, eins og það er notað hér á Íslandi, hefur hins vegar tvöfaldan hvata að þessu leyti. Það hefur þann hvata að menn velji úr aflanum vegna þess að þeir hafa takmarkaða heimild til að veiða. Síðan hvetur það til að velja úr aflanum með tilliti til verðmætanna og jafnvel stærðar fisksins. Stór hluti þeirra sem gera út á fiskveiðar hefur bæði takmarkaðar heimildir og þarf til viðbótar að leigja aflaheimildir á mjög háu verði þannig að verðmætið fyrir aflann þarf að vera í hæsta flokki svo að veiðarnar séu arðsamar.

Ekki hefur verið leyft að menn tilkynntu afla utan aflamarks og gætu landað afla sem þeir hefðu ekki beinan hag af að koma með að landi að öðru leyti. Það væri auðvitað afar fróðlegt, ég tek þar undir orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að sjá tilraun gerða til þess á næstu vetrarvertíð í tvo mánuði, t.d. í mars og apríl, að leyfa mönnum að landa afla og tilkynna afla utan aflamarks. Á þeim árstíma eru hvað flest fiskiskip í drift og forvitnilegt væri að sjá hvað slík tilraun mundi leiða af sér, hvað kæmi í land, hvaða fisktegundir, hvaða stærð menn væru að tilkynna utan aflamarks og hvaða fisktegundir.

Ég held að það sé okkur til vansa að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða og ætla okkur að gera nýjan lagaramma um þessa atvinnustarfsemi en þora ekki að leiða þetta í ljós. Það er furðulegt að við skulum ætla að setja ný lög í hálfgerðri blindni án þess að finna út hvað kerfi eins og það er í dag hefur í för með sér. Það gætum við skoðað með einfaldri tilraun. Það kæmi þá fram hvort menn tilkynntu um mikinn afla utan aflamarks og hvaða tegundir og stærð það væri.

Þetta er því áhugaverðara þar sem sá fiskur sem fer fyrir borð er í flestum tilvikum steindauður og lifnar ekki við við að henda honum í sjóinn. Ég held að það sé rétt af okkur í sjútvn. að fjalla um það um leið og þing kemur saman hvort ekki eigi að gera svona tilraun. Menn geta þá hafnað því ef þeir vilja fara blindandi í gerð nýrra laga.