Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:26:30 (3285)

2000-12-13 14:26:30# 126. lþ. 47.16 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, Frsm. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. um breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999. Ég mæli fyrir nál. minni hluta iðnn.

Ég vil taka fram að ég er efnislega sammála frv. en við 1. umr. og síðan við 2. umr. lögðu menn til að þessu frv. yrði vísað til menntmn. og jafnvel efh.- og viðskn. Ég tel að það hefði verið heppilegra vegna þess að í 4. gr. laganna er kveðið á um mat á því hvort endurgreiðslur skuli falla að framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis. Tekið er fram að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu landsins og náttúru. Þarna er um menningarlegar túlkanir að ræða. Í b-lið segir að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa. Síðan er farið inn á peningaleg mál.

Ég tel að heppilegra hefði verið að bæði efh.- og viðskn. og menntmn. hefðu komið að frv. og þeim hefði verið gefið tækifæri á því að úttala sig um það og gera athugasemdir.

Í nál. minni hlutans segir:

,,Minni hlutinn telur að málið hefði þurft lengri tíma í meðförum nefndarinnar. Eins og fram kom við 1. umr. málsins hefði verið rétt að vísa því til umsagnar menntmn. og efh.- og viðskn., enda koma efnisatriði frv. inn á verksvið beggja þessara nefnda.

Að öðru leyti er minni hlutinn sammála áliti meiri hlutans.``

Ég vil að síðustu benda á að ég tel að við höfum verið sannfærð um það í nefndinni að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, geri ekki athugasemdir við frv. eins og það er núna. Hún hefur fengið það til umsagnar og telur að það standast að öllu leyti eftir því sem fram kom í nefndarvinnunni. Efnislega er ég því sammála frv. en þetta minnihlutaálit leggur áherslu á önnur vinnubrögð.