Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:29:27 (3286)

2000-12-13 14:29:27# 126. lþ. 47.16 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Markmið þessara laga er að styrkja innlendan kvikmyndaiðnað og þetta frv. er tilraun til að bregðast við athugasemdum frá ESA um að lögin fái ekki staðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þetta er í sjálfu sér gott og gilt en hér er verið að mismuna atvinnugreinum, við skulum gera okkur grein fyrir því, herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að mörgum atvinnugreinum eins og ferðamannaiðnaðinum þætti gott að fá endurgreiddan hluta af kostnaði innan lands úr ríkissjóði. Sama gildir væntanlega um sjávarútveginn, eða hugbúnaðariðnaðinn o.s.frv.

Hv. þm. Hjálmar Árnason, framsögumaður meiri hlutans, sagði að gestir nefndarinnar hefðu allir verið mjög ánægðir með frv. Ég efast hins vegar ekki um að fulltrúar ferðamannaiðnaðarins eða sjávarútvegsins eða hugbúnaðargeirans yrðu líka afskaplega ánægðir ef þeir fengju endurgreitt úr ríkissjóði. Öllum þykir ljúft að fá slíkar endurgreiðslur úr ríkissjóði.

[14:30]

Í reynd er þetta ekki annað en lækkun á virðisaukaskatti, 20% af innlendum framleiðslukostnaði er virðisaukaskattur. Hér er verið að endurgreiða 12% af því þannig að þetta er í raun lækkun á virðisaukaskatti þessarar atvinnugreinar. Ég mundi vilja sjá slíka lækkun á virðisaukaskatti í öllu atvinnulífinu. Það mundi örugglega örva atvinnulífið verulega og stuðla að miklum vexti þess innan lands.

Burt séð frá þessum fyrirvörum er ég samþykkur frv. þó að það feli í sér mismunun á milli atvinnugreina. Í ljósi þess að sú grein sem við erum hér að styrkja, kvikmyndaiðnaðurinn, er ákaflega veikburða og ung að árum þá fellst ég á þetta stílbrot, þessa mismunun í skattkerfinu.