Málefni aldraðra

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:42:09 (3289)

2000-12-13 14:42:09# 126. lþ. 47.15 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra og nál. meiri hluta heilbr.- og trn. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn er helst sá að um nefskatt er að ræða og í sjálfu sér má deila um hvort nefskattar séu réttlætanlegir. En þessi nefskattur hefur alfarið farið til þessa málaflokks, svo ég geri ekki athugasemdir við það. Hér er óskað eftir hækkun á breytingu á tekjulið frv. vegna hækkunar á byggingarvísitölu undanfarinna þriggja ára. Þar sem það er lögbundið að fjalla um og hækka gjald til sjóðsins árlega, legg ég til að það verði gert svo hækkunin verði ekki svona mikil.

Ég tek undir þá gagnrýni sem kemur fram í nál. meiri hlutans að óheyrilega stórum hluta af framkvæmdasjóðnum hefur verið varið til rekstrar. Sá hluti hefur stöðugt hækkað og er nú kominn upp í helmingaskipti, helmingurinn úr sjóðnum fer í rekstur og helmingur til uppbyggingar.

Miðað við þær þarfir sem nú eru, bæði vantar hjúkrunarheimili um allt land og þó sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu og fleiri dvalarheimilisstofnanir --- þjóðin er að eldast --- þá legg ég ríka áherslu á að þessi hlutföll breytist, að dregið verði úr rekstrarframlögum og framlög til framkvæmda verði aukin. Ég geri mér grein fyrir því að þetta verður ekki gert á einu ári en að því þarf að stefna og fara þá eftir anda laganna að ekki verði nema í sérstökum tilvikum að fé sé tekið í rekstur stofnana.

[14:45]

Ég vil láta þetta duga að sinni. Eins og ég sagði fer sjóðurinn alfarið til þess málaflokks sem honum er ætlað en meiri áherslu verður að leggja á uppbyggingu.