Stefna í málum Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:06:28 (3294)

2000-12-13 15:06:28# 126. lþ. 48.1 fundur 288. mál: #A stefna í málum Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Nokkuð þekki ég til þessara talna. Það voru um 100 manns þegar fyrst var áformað að útskrifa fatlaða í almennri búsetu af Kópavogshæli. 37 hafa verið útskrifaðir, 53 búa þarna enn þá. Nokkrir eru látnir, 23 teljast fatlaðir aldraðir eða fatlaðir sjúkir. Var áhugavert að heyra að haldið er áfram með þau áform sem ráðherrann kynnti, ætli það hafi ekki verið 1997, um að starfsemin yrði fyrst og fremst endurhæfingarstarfsemi og umönnun svo sem líknardeildin fellur undir. Koma svör ráðherrans ekki mjög á óvart að öðru leyti en því að það er auðvitað svolítið undarlegt fyrir þá sem hér stendur sem settist í starfshóp sem átti að skoða nauðsyn þess að flytja félagsleg verkefni af heilbrigðissviði yfir til félmrn. strax árið 1997, en eins og kom fram í þessum sal í svari við fyrirspurn minni til forsrh. var sú nefnd hreinleg aflögð án þess að hún fengi að starfa. Það er svolítið undarlegt eftir allar þær nefndir sem hafa fjallað um fyrrum Kópavogshæli og reynt að horfa til framtíðar og skoða hvað þurfi að gerast í málefnum fatlaðra að heyra að enn á ný skuli þurfa að skipa nefnd um að flytja málefni þessa fólks, þessara 30 einstaklinga sem búa enn þá á spítalanum yfir til félmrn. Vissulega geri ég mér grein fyrir að nefndin mun þurfa að vinna fljótt og getur eflaust unnið fljótt en þetta hefur legið fyrir árum saman og er undarlegt að hlusta á það að nú þegar á að fara að taka við sér og selja húsið, þá eigi enn einu sinni að skipa starfshóp þrátt fyrir að mörgum sinnum sé búið að komast að sömu niðurstöðu um þessi mál.