Stefna í málum Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:10:16 (3296)

2000-12-13 15:10:16# 126. lþ. 48.1 fundur 288. mál: #A stefna í málum Landspítala - háskólasjúkrahúss í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna nefndarinnar sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á áðan, þá er þetta framkvæmdanefnd. Það er búið að taka ákvörðun um þetta. Búið er að taka ákvörðun um að þetta fari yfir til félmrn. og þessir aðilar fái sambýli. Þetta er ekki nefnd sem á að skoða nokkurn skapaðan hlut nema ganga frá málinu og ég held að hv. þm. hljóti að gleðjast yfir því því að ég hef talið hingað til að hún væri sammála þeirri ráðstöfun.

Hvað varðar annað sem hér kom fram hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um lóðir og lönd sem Ríkisspítalar eiga í Kópavogi, þá er það alveg rétt sem kom fram hjá henni að þar eru mjög dýrmætar lóðir sem Ríkisspítalar eiga og hafa hugsað sér að koma í verð til frekari uppbyggingar fyrir spítalann. Heimild er á fjárlögum til að selja þessar lóðir og nú ætla ég ekkert að semja um það héðan úr ræðustól hver kaupir, en ég er alveg viss um að Kópavogsbær hefur mikinn áhuga á því og hefur sýnt því áhuga að kaupa þessar lóðir. Ég ætla ekki fara að segja hvað nákvæmlega við ætlum að selja fyrir mikla fjármuni en það eru geysilega miklir fjármunir sem þarna liggja og mér finnst að þeim peningum sé betur komið til uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar heldur en að eiga lóðir sem er alveg fyrirsjáanlegt að við þurfum ekki að nýta á þeim stað.

En svo að það sé alveg skýrt þá er búið að taka þessa ákvörðun og aðeins er eftir að framkvæma og þessi nefnd sem er saman sett af félmrh., heilbrrh. og Landspítala -- háskólasjúkrahúsi á að ljúka því máli. En ég endurtek að alger óþarfi er fyrir nokkurn að hræðast það að hann verði borinn út úr þessari blokk og blokkin seld. Það verður ekki gert fyrr en búið verður að ganga frá sambýlum annars staðar.