Útskriftir fatlaðra af Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Kópavogi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:18:21 (3299)

2000-12-13 15:18:21# 126. lþ. 48.2 fundur 289. mál: #A útskriftir fatlaðra af Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Varðandi framtíðina og hver situr í ráðherrastólum --- auðna ræður.

Þau eru áhugaverð svörin sem koma fram í dag og þau eru áhugaverð fyrir þær sakir að nú er í raun og veru verið að koma með áform eða ákvarðanir sem hefði auðvitað átt að taka strax í kjölfar ríkisstjórnarskipta árið 1995. Ljóst er að framkvæmdanefndin á að semja um peningahlið á milli ráðuneytanna og nú ætla ég að minna hæstv. félmrh. á það að þegar búið verður að flytja málaflokkinn yfir og flytja eitt stykki kostnaðarhlutdeild úr heilbrrn. yfir til félmrn., þá er ekki verið að auka þjónustuna við fatlaða. Þá talnagleði þekki ég frá fyrri samanburði. Það er verið að flytja til kostnað. Það er ástæða til að ég nefni þetta.

Ég hef upplýsingar frá svæðisskrifstofunum um að mjög margir eru á biðlista eftir búsetu, bæði í Reykjavík og Reykjanesi. Í heimahúsi yfir 16 ára aldri eru 111 á biðlista hjá svæðisskrifstofunni í Reykjavík en alls eru þeir 169. Í Reykjanesi er ég með töluna 130 á biðlista eftir sambýli og þjónustuíbúð en þar eru fullorðnir og líka þeir sem eru undir 16 ára aldri og eitthvað er á listanum af fólki sem er með úrræði í Tjaldanesi og á Kópavogshæli í dag en sækist eftir því að komast í öðruvísi búsetu. Þetta þýðir gífurlega uppbyggingu, herra forseti, af því að búið er að slá slöku við í nokkur ár og nú á hússjóðurinn hjá Öryrkjabandalaginu að taka við og sjá um þessa uppbyggingu. Þá spyr ég, herra forseti, og vænti þess að hæstv. félmrh. svari því: Hverjir verða vextirnir á lánum Íbúðalánasjóðs til hússjóðsins þegar hússjóðurinn fer að byggja eða kaupa hús undir sambýli fyrir fatlaða á næsta ári?