Meistararéttindi byggingariðnaðarmanna

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:25:14 (3302)

2000-12-13 15:25:14# 126. lþ. 48.3 fundur 304. mál: #A meistararéttindi byggingariðnaðarmanna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. 11. þm. Reykn., Árna R. Árnasonar, til iðnrh. um meistararéttindi byggingariðnaðarmanna á þskj. 347 er í þremur liðum. Er fyrsti liðurinn á valdsviði mínu sem iðnrh. en ég hef aflað svara við 2. og 3. lið frá menntmrh. þar eð þeir liðir fyrirspurnarinnar eru á valdsviði hans.

Í fyrsta lið fyrirspurnarinnar er spurt: Við hvaða reglur styðjast stjórnvöld um útgáfu meistarabréfa til þeirra byggingariðnaðarmanna sem luku meistaranámi og prófum samkvæmt fyrri ákvæðum laga þar um en hafa ekki fengið meistarabréf? Hér er því til að svara að stuðst er við iðnaðarlög við útgáfu meistarabréfa í löggiltum iðngreinum, m.a. byggingariðnaðarmanna. Skulu lögreglustjórar samkvæmt 12. gr. laganna láta af hendi meistarabréf að fenginni umsögn hlutaðeigandi iðnráðs. Núgildandi iðnaðarlög eru nr. 42 frá 18. maí 1978. Allt frá þeim tíma og þar til breytingalög nr. 133 frá 31. desember 1999 öðluðust gildi hljóðaði 1. mgr. 10. gr. laganna svo:

,,Hver maður getur leyst meistarabréf, ef hann fullnægir þeim skilyrðum, sem í 3. gr. segir og hefur lokið sveinsprófi í iðngrein sinni, enda hafi hann unnið að henni síðan undir stjórn meistara ekki skemur en eitt ár og lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Meðan eigi er meistaraskóli í iðninni, getur hver maður leyst meistarabréf, hafi hann unnið undir stjórn meistara í iðngreininni eða nátengdri iðngrein að loknu sveinsprófi eigi skemur en tvö ár.``

Tekið skal fram að tilvísun í 3. gr. iðnaðarlaga er um hæfisskilyrði og skiptir hún ekki máli hér. Með framangreindri breytingu á iðnaðarlögum í árslok 1999 er fellt niður ákvæði þar sem gert er ráð fyrir því að eigi sé meistaraskóli í einhverri iðn, enda hafði á þeim tíma verið kostur á meistaraskóla í öllum iðngreinum um nokkurra ára skeið svo sem nánar kemur fram síðar í svari þessu. Samtímis niðurfellingu þessa ákvæðis um starfsnám hjá meistara þegar meistaraskóli væri ekki fyrir hendi var sett inn sérákvæði um sérstök tilvik þegar sveinar eiga ekki völ á starfsnámi hjá meistara en það ákvæði snertir ekki nám í meistaraskóla.

Á gildistíma iðnaðarlaganna frá 1978 hefur samkvæmt þessu ætíð verið ákveðið í iðnaðarlögum að meistaraskólanám væri meðal skilyrða til að geta fengið meistarabréf ef kostur var á meistaraskólanámi í viðkomandi iðngrein og þar hefur aðstaðan verið mismunandi. Þannig hefur verið kostur á meistaraskóla í húsasmíði áratugum saman. Þeim sem hafið hafa nám í löggiltum iðngreinum á gildistíma laganna hefur mátt vera ljóst að meistaraskólanám væri áskilið í iðnaðarlögum þar sem kostur væri á slíku námi. Í lok 9. áratugarins var aðstaðan orðin sú að öllum gafst kostur á meistaraskólanámi og setti menntmrn. þá reglur sem snerta framkvæmd iðnaðarlaganna að þessu leyti, fyrst reglugerð nr. 98 frá 5. febrúar 1988, um meistaranám og útgáfu meistarabréfa. Mun ég gera nánari grein fyrir þeim reglum í svari við 2. og 3. lið fyrirspurnarinnar.

Breytingar á högum byggingariðnaðarmanna með reglum menntmrn. um meistaraskóla eru aðalatriði í svari við fyrirspurn þar eð ekki hafa verið gerðar eiginlegar efnisbreytingar á ákvæðum iðnaðarlaga um meistaraskóla í gildistíð iðnaðarlaganna heldur var þar gerð krafa um meistaraskólanám ef kostur væri á því.

Í 2. lið fyrirspurnarinnar er spurt hvaða leiðir séu þeim mönnum nú færar sem hafa lokið námi en ekki prófum undir fyrri ákvæðum nefndra laga til að taka nú próf og öðlast meistaraskírteini. Lagaheiti eða númer er ekki tilgreint í fyrirspurninni en þó má ætla af samhenginu að hér sé átt við iðnaðarlög, nr. 42/1978. Meistaraskólaskylda var innleidd að hluta með téðum lögum en var ekki framfylgt að fullu fyrr en frá og með 1. janúar 1989. Þetta hafði í för með sér að þeir sem luku sveinsprófi eftir þann tíma eru nú skyldaðir til þess að ljúka námi frá meistaraskóla ef þeir óska eftir að leysa til sín meistarabréf.

Í 3. lið fyrirspurnarinnar er spurt: Hvaða leiðir eru þeim nú færar til að ljúka námi og prófum til meistaraskírteinis sem hafa hafið nám undir fyrri ákvæðum nefndra laga en ekki lokið því? Af svarinu við 2. lið leiðir að þeir sem hafa hafið nám og jafnvel lokið því fyrir 1. janúar 1989 en ekki lokið sveinsprófi fyrir þann tíma verða að ljúka að fullu námi frá meistaraskóla til þess að geta leyst til sín meistarabréf.

Ég vil bæta því við til skýringar að umhvrn. hefur sett reglugerð nr. 168 frá 3. mars 2000 sem fjallar um skilyrði fyrir löggildingu iðnmeistara samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.