Meistararéttindi byggingariðnaðarmanna

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:31:54 (3304)

2000-12-13 15:31:54# 126. lþ. 48.3 fundur 304. mál: #A meistararéttindi byggingariðnaðarmanna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Árna R. Árnasyni að það er óttalegur frumskógur sem þarna er um að ræða. Ég gerði mér kannski enn betur grein fyrir því þegar ég fór að skoða málið núna vegna fyrirspurnar hans. Þess vegna vil ég þakka honum fyrir að bera fram fyrirspurnina því að hún hefur opnað augu mín fyrir því að þarna þarf að bæta úr. Mun ég taka orð hans alvarlega hvað það varðar að reynt verði að ná samstöðu um það milli þeirra ráðuneyta sem í hlut eiga að koma þessum málum í þann farveg að iðnaðarmenn eigi léttara með að átta sig á stöðu sinni og hvert þeir eiga að leita til þess að fá svör við spurningum og ekki síst fá svör við því hvernig þeir geta öðlast aukin réttindi ef nám þeirra gefur færi á slíku.