Úrskurður um vega- og brúarframkvæmdir í Fljótsdal

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:36:11 (3306)

2000-12-13 15:36:11# 126. lþ. 48.4 fundur 315. mál: #A úrskurður um vega- og brúarframkvæmdir í Fljótsdal# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn. Spurt er: ,,Hverju sætir sú seinkun sem orðið hefur á úrskurði ráðherra um vegarstæði og brúargerð í Fljótsdal?`` Því er til að svara að sá úrskurður sem hér er spurt um er úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 5. júlí 2000 vegna mats á umhverfisáhrifum, samkvæmt lögum nr. 63/1993, um Upphéraðs- og Norðurdalsveg, Atlavík -- Teigsbjarg í Fljótsdal.

Ráðuneytið úrskurðaði í máli þessu þann 7. desember sl. og staðfesti úrskurð skipulagsstjóra. Miðað við lögbundna fresti hefði ráðuneytið átt að vera búið að úrskurða talsvert fyrr eins og hér hefur komið fram. Þær tafir sem urðu á því að kveða upp framangreindan úrskurð stafa af miklum önnum í ráðuneytinu sem koma m.a. til vegna þess að fjölgað hefur kærum til umhvrn. vegna úrskurða skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum og mun ég lýsa því aðeins betur seinna í svari mínu, virðulegi forseti.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hvaða fordæmi telur ráðherra að þessi seinkun geti haft á tímasetningar í vinnuferli annarra framkvæmda sem fara í mat á umhverfisárhifum?`` Því er til að svara að þær tafir sem orðið hafa á úrskurði ráðherra í máli þessu hafa engin áhrif á tímasetningar annarra framkvæmda sem fara í mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstjóri ríkisins úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem falla undir lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og fer sérhver framkvæmd í mat á umhverfisáhrifum óháð því hvenær aðrar framkvæmdir fara í það ferli.

Þriðja spurningin er: ,,Hvaða úrræði telur ráðherra að verði að koma til svo að ekki verði tafir af þessu tagi á matsferli framkvæmda?`` Því er til að svara að þessar framkvæmdir hafa farið svona seint í gegnum ferli okkar í ráðuneytinu vegna þess að þeim úrskurðum sem við þurfum að fjalla um hefur fjölgað mjög. Ég skoðaði tölur og ljóst er að 1995 eru átta úrskurðir vegna mats á umhverfisáhrifum, 1996 eru þeir tíu, 1997 eru þeir þrír, 1998 eru þeir tíu og í fyrra eru þeir 11 en í ár eru þeir 15. Þeim fjölgar mjög verulega, um 40--50% hin seinni ár þannig að það er miklu meira álag á ráðuneytinu vegna úrskurða.

Það hefur líka komið til núna að úrskurðirnar hafa komið inn afar þétt í kæruferli. Kæruferlið er mjög opið og það virðist vera, ég segi ekki í tísku, en afar vinsælt um þessar mundir að kæra úrskurði skipulagsstjóra og Skipulagsstofnunar til umhvrh. Frá ágúst sl. til desember hafa níu úrskurðir verið í vinnslu á sama tíma. Ráðuneytið verður að vinna þessi mál eðlilega, kalla eftir umsögnum og fjalla um þær og þess vegna hefur þessi töf orðið. Við erum enn þá með nokkur mál á eftir eðlilegu tímaferli eins og við vildum gjarnan sjá það.

Vegna þessara anna höfum við reynt að herða á ráðuneytinu og búið er að fjölga tímabundið um einn lögfræðing núna þannig að þeir eru fjórir í stað þriggja. Við erum að vonast til að þessi kúfur detti niður á næsta ári en það er alls ekki víst að okkur verði að ósk okkar í því vegna þess að það virðist vera mjög vinsælt að kæra úrskurði skipulagsstjóra vegna umhverfismats. Umhverfismatið virðist vera mjög mikið í umræðunni og ég held að það sé ein af orsökunum fyrir því að kæruferlið er notað eins mikið og raun ber vitni.

Virðulegur forseti. Aðalsvarið er að úrskurðum sem kærðir eru til umhvrh. hefur stórfjölgað og auk þess erum við líka að taka inn úrskurði vegna t.d. starfsleyfa og stjórnsýslu\-ákvarðana en meginþunginn eru kærur vegna umhverfismatsferilsins.