Úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 16:12:46 (3320)

2000-12-13 16:12:46# 126. lþ. 48.7 fundur 346. mál: #A úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ef ég hef réttar upplýsingar, þó að þær séu ekki staðfestar eða komnar á blöð, hefur úthald landhelgisgæsluskipanna dregist saman á liðnu ári. Ég hef ekki yfirlit yfir það hvernig það hefur verið milli mánaða og er því spurt í fyrri spurningunni: Hvernig var úthald landhelgisgæsluskipanna á síðasta ári, sundurliðað eftir mánuðum?

Landhelgisgæsluskipin hafa um langt árabil verið nokkurs konar öryggisstuðull fyrir útgerðir og sjómenn. Menn hafa mestar áhyggjur af erfiðustu mánuðum ársins og þó að tíðarfar í haust hafi fram til þessa að mestu leyti verið þokkalegt, þó misjafnt eftir landshlutum, verður samt að gera ráð fyrir því að komandi vetrarvertíð geti orðið eins og margar aðrar, þ.e. að um erfitt tíðarfar verði að ræða. Þess vegna er spurt: Verður tryggt að tvö skip verði við gæslu og öryggisstörf samtímis á komandi vetrar- og loðnuvertíð?

Það er afar mikilvægt að á erfiðustu tímum ársins hér við land, einkum þegar stór hluti flotans er nú gerður út eins og yfirleitt er frá því að líður á vetrarvertíðina og fram á vor, geti menn verið nokkuð vissir um að tveimur skipum sé haldið úti. Yfirleitt verða slys við erfiðar aðstæður og verstu slysin verða við verstu aðstæðurnar. Þess vegna er að mínu viti nauðsynlegt að halda úti tveimur gæsluskipum, a.m.k. yfir vetrarmánuðina, þannig að ekki taki of langan tíma að komast á slysstað ef svo illa skyldi vilja til að slys yrði. Þess vegna er þessari fyrirspurn beint til hæstv. dómsmrh. um það öryggishlutverk sem Landhelgisgæslan hefur sinnt á yfirstandandi árum og hvernig því verður háttað.