Úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 16:20:47 (3322)

2000-12-13 16:20:47# 126. lþ. 48.7 fundur 346. mál: #A úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hún er þörf vegna þess ástands sem ríkir nú og kom fram hjá hæstv. dómsmrh. og ég þakka henni einnig greinargóð svör við fyrirspurninni.

Hins vegar vekur athygli að þegar mest á reynir að vetrarlagi er einu varðskipi lagt og er það náttúrlega hið alvarlegasta mál út af fyrir sig. Af því að ég hef stuttan tíma hér í ræðustól, þá vil ég einnig víkja að því sem hæstv. ráðherra kom inn á í sambandi við endurmenntun starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Það vakti athygli mína í fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. dómsmrh. um einmitt þetta atriði hve áhafnarmenn skipanna hafa fengið litla endurmenntun. Það sést best að bæði flugmenn þyrlu og flugvélar hafa hlotið mjög mikla endurmenntun en hins vegar hafa þeir sem starfa á varðskipunum hlotið mjög litla og nánast enga.