Úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 16:23:16 (3324)

2000-12-13 16:23:16# 126. lþ. 48.7 fundur 346. mál: #A úthald og öryggishlutverk landhelgisgæsluskipanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um úthald varðskipa og öryggishlutverk Landhelgisgæslunnar. Ég vil nota tækifærið til að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Ég er sammála honum og hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um mikilvægi Landhelgisgæslunnar, bæði hvað varðar hlutverk hennar til að halda uppi lögum og reglu og gæta öryggis sjófarenda. Við þurfum alltaf að halda vöku okkar í þessum efnum.

Ég held að það hafi einnig verið ágæt ábending hjá hv. þm. um endurmenntunarmöguleika starfsfólks Landhelgisgæslunnar og það er þó fagnaðarefni ef betra tækifæri gefst til þess að sinna þeim málum. Ég hef einmitt nýlega fengið í hendur samþykkt formannaráðstefnu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að tryggja Landhelgisgæslunni nægilegt rekstrarfé og til að flýta smíði nýs varðskips og ég get tekið undir hvort tveggja. Ég átti nýlega ágætan fund með fulltrúum Sjómannafélags Reykjavíkur vegna þessara mála. Hins vegar liggur ljóst fyrir að breytt fyrirkomulag á úthaldi varðskipanna hefur óveruleg áhrif á heildarúthaldið. Það verður væntanlega aðeins minna en í ár en aðeins meira en árið 1999. Það liggur jafnframt ljóst fyrir að engar breytingar verða á því að tvö skip verða að jafnaði við gæslu- og öryggisstörf.

Ég held að fyrirspurninni sé svarað, herra forseti.