Hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 10:36:33 (3327)

2000-12-14 10:36:33# 126. lþ. 49.91 fundur 207#B hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna því að ríkisstjórnin skuli loks viðurkenna vanda Ríkisútvarpsins, láta af þrjósku sinni og láta undan þeim þrýstingi sem á henni hefur verið lengi vegna þessa máls.

Herra forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar og átelja ríkisstjórnina, þá helst hæstv. menntmrh. Var ekki hægt að leggja þessa hækkun afnotagjaldsins til á meðan fjárlög voru enn opin og til umræðu? Nei, það gat hæstv. ríkisstjórn ekki gert vegna þess að tillögur þar um voru á vegum stjórnarandstöðunnar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vann að því á öllum vígstöðvum meðan fjárlög voru til umfjöllunar að tekið yrði á vanda Ríkisútvarpsins. Eins og alþjóð veit, samþykkir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hins vegar ekki tillögur frá stjórnarandstöðunni. Það er prinsipp sem ekki skal brotið, ekki undir nokkrum kringumstæðum. Frekar er ríkisstjórnin tilbúin að leggja á sig fjallabaksleiðir og lagaklæki eftir að búið er að samþykkja fjárlög, fara á bak við, undir, aftan við, umfram allt þannig að ekki verði hægt að hengja ráðherrum um háls að þeir hafi látið undan þrýstingi frá stjórnarandstöðunni.

Herra forseti. Karlar sem haga sér svona eru litlir karlar.