Hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 10:37:58 (3328)

2000-12-14 10:37:58# 126. lþ. 49.91 fundur 207#B hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[10:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég ítreka það að ég fagna því að fjárráð Ríkisútvarpsins skuli aukin. Í haust ræddum við hins vegar um með hvaða hætti framkvæmdarvaldið umgengst lögin, lög um fjárreiður ríkisins, fjárlagagerð og alla þá vinnu. Þar hefur þótt á skorta. Þess vegna verð ég, herra forseti, að gagnrýna vinnubrögð hjá hæstv. menntmrh. Þessi bréf frá Ríkisútvarpinu hafa legið fyrir allt þetta ár og frá síðasta ári líka en þeim ekki verið svarað að því er mér hefur verið tjáð. Það var því í lófa lagið að afgreiða þetta mál áður en fjárlög voru samþykkt og láta það fá lögformlega afgreiðslu. Þetta er ekki flokkað lengur sem afmarkaðar sértekjur Ríkisútvarpsins heldur sem ríkistekjur og síðan fært aftur til Ríkisútvarpsins. Þegar slík ákvörðun er tekin er í sjálfu sér verið að breyta nýsamþykktum fjárlögum.

Ég leyfi mér að spyrja, hæstv. forseti, hæstv. menntmrh. um hvernig útfæra eigi það þegar sagt er í 10. gr. í lögum um Ríkisútvarpið að Alþingi staðfesti fjárhagsáætlunina endanlega í fjárlögum, sem við höfum gert. Mun hann fyrir jól leggja fram fjáraukalög sem heimila þá þessa breytingu á fjárlögum. Ég væri mjög fús að taka það fyrir hér fyrir jól þannig að hækkunin, af því að hún á að verða 1. janúar, fái löglega meðferð í þinginu.

Ég held, herra forseti, að allir þingmenn vilji að farið sé að lögum og vilji að fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins verði bætt. En þegar farið er í kringum lögin eins og hér er gert þá er það miður af hálfu framkvæmdarvaldsins þó að málefnið sé gott.