Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:12:56 (3336)

2000-12-14 11:12:56# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:12]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. að honum var sérstaklega umhugað um Framsfl. og það virðist vera þannig með vinstri græna að þeir eru í einhverri sérstakri pólitískri baráttu við Framsfl. af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Þeir gleyma því að höfuðandstæðingur þeirra samkvæmt þeirra formlegu skilgreiningu er Sjálfstfl. En ég held að ég verði að taka aðeins til varna vegna þeirra ummæla sem hann lét falla um kosningastefnuskrá okkar.

Í fyrsta lagi varðandi barnabæturnar almennt. Þingmaðurinn vill meina að tekjur eða framlag ríkisins til barnabóta hafi lækkað frá því sem var fyrir allnokkrum árum um tvo milljarða kr. þrátt fyrir þær breytingar sem verið er að gera nú. Ég hef ekki skoðað þær tölur til hlítar og vil því ekkert dæma um sannleiksgildi þeirra. Ég vil þó segja að þegar tekjur fólks hækka eins og verið hefur síðustu fimm ár verulega, 30% kaupmáttaraukning eða svo, leiðir það til þess að bætur sem tengdar eru tekjum hljóta að dragast saman. Annað væri óeðlilegt ef menn eru á annað borð á þeirri skoðun að það eigi að vera tekjutenging bóta sem hv. þm. lýsti sig fylgjandi.

Ég vil því meina að ef fjárhæð barnabóta verði lægri eftir breytingarnar en var áður fyrir nokkrum árum er það fyrst og fremst vegna almennrar kaupmáttaraukningar launafólks. Ég fellst því ekki á þá athugasemd þingmannsins að með því sé á einhvern hátt gengið á bak kosningastefnu Framsfl.

Ég vænti þess að geta síðan bætt við í síðara andsvari öðrum efnisatriðum sem mér finnst full ástæða til að gera athugasemdir við.