Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:33:52 (3343)

2000-12-14 11:33:52# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:33]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar dregið er úr tekjutengingu barnabóta eins og gert er í þessu tilviki og afnumin eignatenging þá er verið að hækka barnabætur. Það vill hv. þm. ekki segja.

Það er líka annað sem hv. þm. segir ekki, þ.e. að almennur kaupmáttur hefur aukist um nærri 30% frá 1995. Hv. þm. segir að þrátt fyrir þann bata ættu barnabætur að vera óbreyttar. Hv. þm. segir að hann telji að barnabætur eigi að vera óháðar tekjum en segir svo í ræðum sínum, sem hann flytur hér endalaust, að hann sé fylgjandi því að hafa tekjutengdar barnabætur.

Hvernig eiga menn að skilja þennan tvískinnung hjá hv. þm., formanni þingflokks vinstri grænna? Ég vil svara því, herra forseti. Alveg eins og allan annan tvískinnung frá þessum ágæta flokki sem vill alltaf eitthvað allt annað en á að fara að gera. Hann hefur alltaf viljað, í umræðum um sameiningu bankanna, sameinaðan Búnaðarbanka og Landsbanka þangað til á að fara að gera það, þá vilja þeir það ekki lengur heldur eitthvað allt annað. Þetta er venjulega málflutningur hjá hv. þm. vinstri grænna.