Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:35:14 (3344)

2000-12-14 11:35:14# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vissi að það stæði ekki á því að við fengjum sýnikennslu í því hvernig ætti að hafa hérna uppi sanngjarnan og góðan málflutning.

Varðandi aukinn stuðning við einstæða foreldra þá skil ég það þannig að sá aukni stuðningur komi til tekjulágra einstæðra foreldra gagnvart fyrsta barni, ekki gagnvart öðrum börnum. Þannig fæ ég skilið þessar breytingar svo við höldum því til haga.

Hitt vil ég leggja áherslu á að vissulega hefur orðið kaupmáttaraukning á liðnum árum þegar á heildina er litið. Ég vil hins vegar líka vekja athygli á því að tilkostnaður barnafólksins hefur aukist stórlega. Húsnæðiskostnaður hefur farið verulega upp á við, skólakostnaður hefur farið upp á við, m.a. með auknum skólagjöldum, kostnaður í velferðarþjónustunni hefur almennt farið upp á við með auknum notendagjöldum í heilbrigðisþjónustunni og víðar.

Til að mæta þessu höfum við lagt áherslu á að hagur barnafólksins verði bættur og kjör þess styrkt með auknu framlagi til barnabóta. En það hefur ekki gerst, barnabæturnar hafa verið skertar. Þrátt fyrir aukinn tilkostnað í húsnæðismálum, skólamálum, heilbrigðismálum o.s.frv. þá hefur því ekki verið mætt með auknum barnabótum. Þær hafa verið rýrðar og þær hafa verið skertar. Þess vegna kvaðst Framsfl. ætla að skera upp herör fyrir síðustu kosningar. En árangurinn er því miður ekki meiri en þessu nemur. Við leyfum okkur að vekja á þessu athygli við umræðuna og menn verða að geta tekið slíkri gagnrýni.