Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:03:30 (3353)

2000-12-14 12:03:30# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:03]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er satt og rétt, við erum ekki að gera neinar grundvallarbreytingar með þessu frv. en engu að síður er verið að hækka svokallaðan nefskatt í samræmi við vísitölu eins og ráðherrann lýsti hér. Við höfum farið yfir það að þetta er nokkur peningur fyrir þetta fólk. Ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki rétt að undanþiggja líka örorkulífeyrisþega, a.m.k. örorkulífeyrisþega með fulla tekjutryggingu. Ég saknaði þess í máli hæstv. ráðherra að heyra það ekki. Hvað réttlætir það að hafa þá utan við þessa undanþágu?

Mér finnst eins og málið er vaxið og það frv. sem við erum að ræða hér ekki kalla á það, sú tillaga sem ég var að leggja fram við ráðherrana, að hún biði eftir einhverri nefnd á vegum forsrh. sem er að endurskoða almennt tengingu við skatta lífeyrisþega. Mér finnst það svo einfalt mál að breyta þessu sem engu skiptir í búskap ríkissjóðs en breytir stóru á næsta ári fyrir þennan hóp.

Þess vegna valda orð hæstv. ráðherra mér nokkrum vonbrigðum þó hitt veki einhverjar vonir ef nefnd forsrh. er að skila af sér sem er að vinna að því að leggja fram tillögur til að bæta kjör þessa fólks.

Ég hefði gjarnan viljað, fyrst hæstv. ráðherra er svo vinsamleg að vera við umræðuna, að hún mundi skýra verksvið þessa hóps nokkuð nánar en hægt er að gera í stuttu andsvari og hvort lífeyrisþegar geti þá átt von á einhverjum breytingum og bótum á kjörum sínum þegar í upphafi árs af því mér er ekki alveg ljóst hvert verksvið þessarar nefndar er. Ég vildi gjarnan, herra forseti, að hæstv. ráðherra lýsti því nokkuð nánar en hún gerði í stuttu andsvari hvert er verksvið þess hóps og hvort hún telji ekki eðlilegt og réttlátt að örorkulífeyrisþegar séu líka undanþegnir þessu gjaldi.