Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:07:07 (3355)

2000-12-14 12:07:07# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst málið skýrast aðeins betur núna við síðari ræðu hæstv. ráðherra. Ráðherrann ætlar greinilega ekki að fallast á þá tillögu sem við flytjum en þó er ákveðnum áfanga náð vegna þess að hæstv. ráðherra segir að hún hafi komið því til fulltrúa síns í nefndinni að skoða sérstaklega þennan nefskatt gagnvart öryrkjum og þá væntanlega einnig öldruðum því að af hverju skyldu ekki 67 ára og eldri vera undanþegnir þessu gjaldi? En nú sér maður ekki á fjárlögum að gert sé ráð fyrir neinni aukningu til aldraðra. Þar kemur fram að lífeyrir þeirra eigi að hækka um 4%, forsendur þjóðhagsspár segja að verðlag á næsta ári muni hækka um 5,8%. Við erum með lög í landinu frá 1998 sem segja það að taka eigi tillit til launavísitölu en verðlags ef verðlag er hærra. Hverju mega öryrkjar og aldraðir eiga von á að því er það varðar? Eiga þeir von á því strax 1. janúar að lífeyrir þeirra hækki um 5,8% í samræmi við þá verðlagsspá sem liggur fyrir eða hvað er það sem öryrkjar og aldraðir eiga von á núna 1. janúar? Munu þeir fá þessa 4% hækkun strax 1. janúar sem fjárlögin kveða á um? Ég held að það væri mjög mikilvægt ef það liggur alveg skýrt fyrir að ráðherrann mundi þá upplýsa það hér. Síðan spyr ég hæstv. ráðherra, af því að ekki er gert ráð fyrir neinu fjármagni í þetta sem verið er að vinna á borði forsrh. á fjárlögum, hvort þess er að vænta að það verði mjög fljótlega sem þessi niðurstaða fæst og að hún fari þá að skila sér í buddu öryrkja og aldraðra sem ekki nú veitir af.