Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:12:56 (3359)

2000-12-14 12:12:56# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, Frsm. minni hluta ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:12]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að hér séu engar grundvallarbreytingar. Það má kannski segja að það sé rétt. Það er verið að hækka nefskatt. Aftur á móti hafa orðið grundvallarbreytingar á kjörum þess hóps sem ég var að nefna, sem eru verst settu lífeyrisþegarnir, því þeir borguðu ekki skatta fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Ekki nefskatta?) Þeir hafa ekki borgað nefskattinn því þeir sem eru undir skattleysismörkum borga ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra, ef hæstv. ráðherra kynnti sér lögin. Þeir sem eru undir skattleysismörkum borga ekki þennan nefskatt. Þessi hópur er kominn yfir skattleysismörkin og er þess vegna farinn að borga þennan nefskatt auk almennra skatta. Það eru grundvallarbreytingar á kjörum þessa fólks. Það er á þeim grundavallarbreytingum sem við viljum taka og það er á þeim grundvallarbreytingum á kjörum fólks sem við erum að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún sé tilbúin að koma til móts við okkur og taka á því þannig að þetta fólk sé áfram undanþegið þessum nefskatti eins og það var meðan það var undir skattleysismörkum. Þetta fólk hefur lent í þeim hremmingum að þurfa að fara að borga skatta vegna þess að skattleysismörkin hafa ekki fylgt launaþróun og bæturnar hafa farið upp fyrir, þ.e. öryrkjar og aðrir ellilífeyrisþegar sem búa einir og eru undir 70 ára aldri lenda í þessum nefskatti núna vegna þess að tekjurnar þeirra eru komnar yfir skattleysismörkin. Á það erum við að benda og það er grundvallarbreyting. Þó grundvallarbreytingin sé ekki í þessu frv. þá hafa orðið grundvallarbreytingar á kjörum þessa hóps og það er á því sem við viljum taka og koma réttlátari háttum þar á.