Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 13:39:01 (3365)

2000-12-14 13:39:01# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs greiðir atkvæði með þessu frv. þótt við teljum að aðrar leiðir til að draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu hefðu verið heppilegri. Með frv. er eignatenging barnabóta afnumin og skerðingarmörk vegna tekna hækkuð. Þetta er til góðs en síðan koma til sögunnar eingreiðslur, 33.270 kr. fyrir hvert barn fram að sjö ára aldri. Þetta er lægri upphæð en 1997 sem var 40 þús. kr. fyrir öll börn að 16 ára aldri, en látum það vera.

Í kerfinu eins og það er núna er sérstakt framlag til allra barna að sjö ára aldri, 31.703 kr., sem koma núna til allra barna undir sjö ára aldri en það er tekjutengt þannig að fyrir fólk sem er undir skerðingarmörkunum, fyrir lágtekjufólkið, er þetta ekki sú kjarabót sem gumað hefur verið af. Þetta er tekjubót fyrir einstæða foreldra, fyrir fyrsta barn en fyrir hin börnin hafa þessar greiðslur verið til staðar þannig að þetta eru ekki þær úrbætur sem menn guma af.