Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:06:01 (3377)

2000-12-14 14:06:01# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. 1. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. formanni nefndarinnar að fundurinn var boðaður með eðlilegum hætti en frá því á mánudag hafði samt legið fyrir vissa fundarmanna eða nefndarmanna um að ekki yrði fundur og því hafði ég ráðstafað tíma mínum öðruvísi. Ég hafði samband við starfsmann nefndarinnar og sagði að ég ætti mjög erfitt með að mæta á þennan fund en gerði það samt og lagði af stað heiman frá mér í tíma. Það var mjög vont veður á Reykjanesbraut og ég kom tíu mínútum of seint til fundar. Ég verð að segja það að mér finnst mjög óeðlilegt að þá skyldi vera búið að afgreiða þetta mál út úr nefndinni þar sem fyrir lágu tvær nýjar mjög efnismiklar umsagnir um málið. Ég veit að frv. samkvæmt orðanna hljóðan opnar á möguleika fyrir aðrar stöðvar en það opnar á þær með leyfi hæstv. ráðherra og ummæli hæstv. ráðherra liggja fyrir. Hann ætlar ekki að veita slík leyfi. Þess vegna flytjum við þá brtt. sem hér liggur fyrir.