Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:09:03 (3380)

2000-12-14 14:09:03# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Vegna þessarar umræðu vil ég aðeins skýra sjónarmið mín og fara yfir málið. Um leið og ég þakka hv. landbn. fyrir skjót vinnubrögð og vönduð vil ég segja að að allt undir sólinni er háð miklum breytingum og ekkert stendur að eilífu. Svo við förum í háloftin, þá koma ný rök, ný vísindi og nýjar skoðanir mótast. Þar með er ég ekki að boða að ég muni skipta um skoðun út í loftið. Ég hef sagt að frv. opnar fyrir ákveðna möguleika og frelsi í þessum efnum til að fleiri megi koma að þessum verkefnum. En eitt er ljóst að það sem ráðherrann í þessu tilfelli verður að hafa hugfast er hvers vegna dýrin sem til landsins koma þurfa að fara í þessa meðferð, fyrir hverja er það gert o.s.frv. Er það gert af þráhyggju og asnaskap eða er það gert vegna varúðarráðstafana og dýraverndar? Auðvitað snýst þetta mál um dýravernd. Það snýst um það að við göngum af gætni um gleðinnar dyr. Við höfum lent í því Íslendingar, eftir síðari heimsstyrjöld svo að ég taki dæmi, að hér komu lifandi hundar inn í landið sem gerðu það t.d. að verkum, að gamlir menn segja mér, að flestir hundar Sunnlendinga féllu úr fári. Þess vegna er öll þessi varúð viðhöfð að við erum að vernda dýrin sem við eigum og um leið hagsmuni þeirra sem eiga þau dýr. Þess vegna ber okkur að tala ekki um þetta mál af neinni léttuð.

Eitt er klárt að aðstæðurnar kunna að breytast og ég get lýst því hér yfir að sem rökhyggjumaður mun ég hlusta á hina færustu vísindamenn, dýralækna og þá umsækjendur sem vilja gera þessi verkefni að sínum, hvað þeir leggja til og hvernig þeir ætla að standa að sínum málum. Vissulega verður dýrt að koma upp slíkri stöð þannig að þetta er ekkert einfalt mál. Þegar hv. þingmenn tala hér eins og það sé að hefjast ferðalagið í Keflavík þegar fólk flytur inn lifandi dýr, að þar taki við hin mesta þrautarganga og erfiðleikar, þá auðvitað byrjar ferðalagið einhvers staðar annars staðar langt úti í veröldinni, í annarri heimsálfu jafnvel og sá sem á dýrið verður að hafa í huga þegar hann leggur af stað með það og ber ábyrgð á því sjálfur gagnvart dýraverndarlögum og þeirri samúð sem við berum fyrir dýrum í hvaða ferðalag hann er að fara með vininn sinn í. Það getur stundum verið betra að gefa hann nágranna sínum og biðja hann að vernda hann að eilífu heldur en að leggja upp í slíka ferð. Ferðin byrjar ekki í Keflavík.

Ferðin frá Keflavík til Hríseyjar var ákveðin á hv. Alþingi fyrir mörgum árum af þessum ástæðum sem ég hef rakið. Ég vil ekki raska þeirri stöðu út af því sem ég hef nú sagt í þessu máli. Mig undrar sumar umsagnir sem hér koma fram frá dýravinum. Það er eins og þeir séu hættir að gera sér grein fyrir því hvað getur hlotist af slysi í þessu efni.

Líka kann að vera að við Íslendingar ættum fyrst og fremst að segja að okkar sóttkví ætti að vera erlendis, þess vegna gæti hún verið erlendis. Það kann líka að vera að sá tími sé í nánd að lyf og sprautur geti gert það að verkum að aðstæður breytist á stuttum tíma, að hægt sé að sprauta dýrin. Þetta kann að vera. Ég vil fara af fullri varúð og vil fullvissa hv. þingmenn um að ég hef ekki lokað neinum leiðum. Ég er í rauninni með því að leggja þetta frv. fyrir ríkisstjórn og að það er komið til Alþingis, að leggja áherslu á það sem ýmsir hér eru að gagnrýna mig fyrir, að hægt sé að hafa aðra möguleika í frammi í framtíðinni. Ég hef sjálfur lýst því yfir við 1. umr. að ég ætli ekkert að hlaupa til og ákvarða það að sett skuli upp önnur stöð.

Fyrst og fremst hef ég sagt að með samþykki ríkisstjórnar og Alþingis, sem ég hygg að allir hafi greitt atkvæði, þá varð það niðurstaða að stækka stöðina í Hrísey til að þjóna hagsmunum þeirra sem gæludýrin eiga og gera þetta auðveldara og stytta biðlista. Sú vinna hefur farið fram og stöðin hefur verið opnuð þannig að biðlistar munu styttast og með þessu greiddu hv. alþm. atkvæði. En við skulum velta því fyrir okkur hvað í þessum málum gerist. Ég fullvissa hv. þm. um að ég er tilbúinn að skoða nýjar aðstæður í þessu máli og tel mér skylt að gera það. Sem landbrh. allra Íslendinga mun ég gera það af raunsæi. En ég er ekkert fis og hleyp ekki alltaf til. Ég hef sagt Hríseyingum að þeir hafi staðið sig vel í 25--30 ár, þeir hafi varðveitt áfallalausa stöð. Engin dæmi eru um að slys hafi orðið í þessum efnum á leiðinni frá Keflavík til Hríseyjar, svo vel er hún varin, og þess vegna er ég undrandi á hv. þm. Reykn., Sigríði Jóhannesdóttur, að koma með svona sögusagnir í ræðustól Alþingis að það sé svona hipsumhaps hvernig staðið sé að sótthreinsun í Keflavík. Ég mun fara yfir þau orð og ummæli og láta kanna það því að það er mjög mikilvægt að rétt sé að þessu staðið.

Ég veit ekki hvort ég þarf að leggja meira til þessara mála. Ég hef sjálfur sem landbrh. rutt braut fyrir því að þetta geti verið með öðrum hætti samkvæmt lögum. En ég bið hv. þingmenn um að virða mér það til vorkunnar að það verði að fara mjög faglega yfir þessi mál og það geri ég fyrst og fremst vegna þess að ég er sjálfur dýraverndarmaður og virði það góða og heilbrigða ástand sem dýr okkar eru í. Þau geta nefnilega orðið fórnardýr á einni nóttu.