Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:19:59 (3383)

2000-12-14 14:19:59# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil enn fagna þessari yfirlýsingu. Ég tel að þetta séu ákveðin tímamót að hæstv. landbrh. hefur lýst því svo nú má ljóst vera og má segja að sé kýrskýrt að komi fyrir því rök og fylgi rök umsókn, þá sé hæstv. ráðherra reiðubúinn að bregðast við þeim og opna fyrir einangrunarstöð annars staðar. Ég tel það vera í alla staði skynsamlegt eins og fram hefur komið í máli þeirra hv. þm. sem um það hafa fjallað þar sem innflutningurinn á sér fyrst og fremst stað í gegnum Keflavíkurflugvöll. Þar er markaðurinn ef svo má segja. Hann er næstur þeim flugvelli. Ef hægt er að uppfylla þau varnarskilyrði sem hæstv. ráðherra hefur nefnt hlýtur að vera eðlilegt að opna a.m.k. fyrir þann möguleika að slík stöð rísi þar. Ég vil þess vegna fagna yfirlýsingu hins ágæta ráðherra sem virðist vilja taka rökum.