Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:46:27 (3396)

2000-12-14 14:46:27# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér ræðum við mál sem virðist í fljótu bragði ekki stórt í sniðum, en er óumdeilanlega mjög mikilvægt fyrir marga. Við erum ekki aðeins að ræða það út frá samfélagslegum viðhorfum um mikilvægi sóttvarna og einangrunar í þeim skilningi heldur ekki síður viðhorfum þeirra aðila sem eiga þessi dýr og vilja vera samvistum við þau.

Herra forseti. Mér finnst menn tala hálfgerða tæpitungu og tipla í kringum kjarna málsins. Ég vík nú talinu að því sem mest hefur verið um rætt, rekstri gæludýrastöðva, sem er í raun meginmál umræðunnar þó frv. að vissu leyti fjalli um langtum víðfeðmari svið.

Við skulum fara yfir orðalag 7. gr. gildandi laga sem allt snýst um. Þar segir með leyfi forseta:

,,Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögum þessum skal vera til staðar eða byggð sóttvarnastöð á hentugum stað.``

Þetta hef ég túlkað þannig að landbrh., nánast prívat og persónulega, eða landbrn. á kostnað skattborgara, hafi staðið að uppbyggingu og rekstri einangrunarstöðvar í Hrísey sem hefur að öllu leyti verið kostuð af fé almennings, skattborgurunum. Hverju er verið að breyta, herra forseti, í frv. hæstv. ráðherra og meiri hluta landbn.? Jú, orðalagið er svona núna, með leyfi forseta:

,,Ráðherra getur falið einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum rekstur stöðvanna.``

,,Ráðherra getur falið`` ... Það er nákvæmlega það sem ráðherra hefur gert á liðnum árum. Þar sem í raun og sanni er ekki verið að breyta neinu, ekki hætis hót. Í sannleika sagt er eingöngu verið að festa það fyrirkomulag í sessi sem verið hefur til staðar, að ráðherra hefur falið einstaklingi eða fyrirtæki, verktaka, að reka gæludýrastöðina í Hrísey, borgað þeim verktaka, byggt fyrir hann húsið, hér með fjármunum almennings en að öðru leyti hefur ráðherra hina fjárhagslegu ábyrgð.

Það frv. sem hæstv. ráðherra er að leggja fram gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum á þessu fyrirkomulagi. Það er bara þannig. Við skulum alveg tala tæpitungulaust um það. Þrátt fyrir margar loðnar ræður hæstv. ráðherra um að eitthvað kunni að breytast einhvern tímann og rökhyggja ráði ferð og hvaðeina er það einfaldlega þannig að í ráðuneyti hæstv. ráðherra lá fyrir umsókn um rekstur slíkrar stöðvar. Á grundvelli þessa frv. og gildandi laga, með vísan til þessa frv. sem var fyrir hinu háa Alþingi fyrir ári og er hér á nýjan leik núna, fengu umsækjendur þau svör frá ráðuneytinu að því miður væri ekki heimild til að veita þetta leyfi enda hefur ráðherra engan áhuga á því að fjölga þessum starfsleyfum. Þannig er staða málsins.

Ef hv. þm. nægir það og þeir kalla það tímamótayfirlýsingu hæstv. ráðherra, þegar hann segist ekki vera neitt fis og það kunni kannski að vera einhvern tímann að hann muni vega og meta málin og taka á því með víðsýni hugans, þá finnst mér illa komið fyrir þessari stofnun.

Herra forseti. Það er af þeim ástæðum sem við flutningsmenn brtt. á þskj. 538 viljum einfaldlega taka af öll tvímæli. Við viljum byggja undir að réttur fólks til að reka svona stöðvar sé jafn. En auðvitað skulu skilyrði fyrir slíkum rekstri vera ákaflega skýr og glögg og í engu slegið af í þeim efnum.

Ég vil halda því algjörlega til haga og undrast satt að segja, herra forseti, skrýtin tilsvör hæstv. ráðherra og ég vil segja nánast árásir hans á hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur hér áðan, þar sem hann bar henni það á brýn að hún væri einhver afsláttarmanneskja í þeim efnum. Hæstv. ráðherra hefði betur lesið greinargerð hv. þm. og mína með þessari brtt. þar sem í 1. mgr. er lögð áhersla á að í engu skuli slá af kröfum í þessum efnum, heldur er þvert á móti gert ráð fyrir að ráðherra hafi til þessa heimild og ráðrúm að bæta í þessi skilyrði og kannski er engin vanþörf á því.

Herra forseti. Ég vil strax hér og nú frábiðja mér og okkur flutningsmönnum þessarar brtt. ódýrar sendingar af þessum toga.

Ég spyr hæstv. ráðherra og árétta fyrri spurningu mína um hvort það séu ekki réttar upplýsingar sem ég hef undir höndum að umsækjendum um starfsleyfi gæludýrastöðvar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið vísað frá? Það er fyrsta spurningin.

Í öðru lagi spyr ég af hvaða ástæðum var þessum aðilum vísað frá.

Í þriðja lagi vil ég upplýsa að þessir umsækjendur hafa þegar vísað máli sínu til umboðsmanns Alþingis sem er með það mál til umfjöllunar.

Í fjórða lagi vil ég spyrja og ég vil fá hreinskilið svar við því: Mun hæstv. ráðherra neita eða játa slíkri umsókn komi þessir aðilar að máli við hann eða aðrir sem hafa öll mál sín í stakasta lagi miðað við þær reglur sem gilda.

Það er ósköp einfalt svar við því: Já eða nei. Til þess að fyrirbyggja einhverjar uppskrúfaðar 17. júní ræður vil ég biðja hæstv. ráðherra um að svara mér já eða nei. (Landbrh.: Mér er ekki skylt að gera það.) Ég er að biðja hann um að gera það, herra forseti. Auðvitað er ráðherranum ekki skylt að gera eitt eða neitt nema hv. þm. samþykki brtt. okkar Sigríðar Jóhannesdóttur sem gera þá ráðherranum skylt að gæta jafnræðis gagnvart þeim aðilum sem sækja um leyfi af þessum toga.

Herra forseti. Það er sú stjórnfesta í stjórnkerfinu sem við eigum að temja okkur. Finnst fólki, hv. þm., það vera til mikillar fyrirmyndar að það nánast lúti geðþótta hæstv. ráðherra hverju sinni hvort Pétur eða Páll njóti náðar hæstv. ráðherra, njóti þess að fá að reka einangrunarstöðvar hér eða þar? Finnst hv. þm. það bjóðandi að bjóða þegnum landsins upp á að loka lagatexta þannig að ráðherra geti, ef hann vill, leyft þessum eða hinum rekstur slíkra stöðva? Hvers konar lagasetning er það, herra forseti? Hún er auðvitað ekki boðleg.

Þess vegna viljum við taka af öll tvímæli, ég og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir, og gera þessi skilyrði ákaflega glögg og skýr. Þeir fá til þess leyfi sem uppfylla hin almennu skilyrði, að jafnræðisreglan verði virt að fullu. Það er hin eina rétta lagasetning, herra forseti. Síðan geta menn deilt um það linnulaust hvort ein, tvær, þrjár, fjórar eða fimm stöðvar eigi einhvern rekstrargrundvöll. Það er ekki hlutverk okkar að meta það og kemur okkur ekkert við. Ég er hins vegar sannfærður um að það verði aldrei nema ein, tvær eða þrjár stöðvar, það verður bara að ráðast. En grundvallaratriðið er það að skilyrðin eru skýr varðandi umbúnað og aðbúnað allan fyrir dýrin.

Þess vegna ætla ég ekki undir þessum formerkjum þó full ástæða væri til þess, að setja hér á langa ræðu um dýravernd og flutninga norður yfir heiðar. Hins vegar er full ástæða til þess af hálfu hæstv. ráðherra vegna þeirra umsagna sem eru komin frá Dýraverndunarsambandinu um gang þessara mála, frá Keflavík norður í Hrísey, að gera á því sérstaka rannsókn, ef sannleikskorn er í þessu sem ég get ekki dregið í efa, þá er náttúrlega mikill misbrestur á öllum hlutum. Það gefur augaleið að ástæða er til þess að gera á því sérstaka athugun og rannsókn. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geri það.

Herra forseti. En ég sagði áðan að þetta er mikið mál, ekki bara fyrir dýrin, ekki bara fyrir samfélagið, heldur líka fyrir það fólk sem á hlut að máli, þ.e. eigendur dýranna sem hafa talað skýrt í þessum efnum. Þeir vilja skýrar og glöggar reglur. Þeir vilja betri og bætta þjónustu. Við eigum að reyna að mæta því án þess að slá í nokkru af almennum skilyrðum varðandi umbúnað og allan aðbúnað.

Herra forseti. Við erum annars vegar að ræða um það að mæta nýjum tímum eða hanga í arfi hins liðna. Ég held við eigum að taka skref áfram. Þess vegna samþykkjum við þá brtt. sem hér liggur fyrir.