Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:06:03 (3401)

2000-12-14 15:06:03# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. meiri hluta HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um málið. Hún hefur verið góð og fjörleg og ærleg. Vissulega er meiningarmunur um það hversu langt skuli ganga en ég held að það sé komið fram og menn hafi áttað sig á því að hér er verið að opna á ákveðna hluti og staðfesta það sem þegar hefur orðið. Benda má á að Landssamband kúabænda hefur annast innflutning á erfðaefni í holdanautakyn og Félag svínabænda annast innflutning á erfðaefni í svín. Nú er verið að staðfesta það að ráðherra sé þetta heimilt, en það var á gráu svæði áður vissulega að sú heimild lægi fyrir ótvíræð í lögum.

Upphaflega voru sett lög um einangrunar- og sóttvarnastöð í Hrísey og annars staðar ekki. Nú er opnað á að þær geti verið víðar eins og oft er komið fram. Gagnrýni hefur komið töluvert hörð á að löng bið sé eftir því að koma gæludýrum inn í landið og í sóttkvína í Hrísey. Það er ósköp eðlileg og réttmæt gagnrýni. Ég skil hana mætavel. Þess vegna var ákveðið að stækka þá stöð. Á síðasta ári, fyrir réttu ári, var t.d. samþykkt á hinu háa Alþingi fjárveiting til þess að stækka þá stöð. Mér er til efs að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi verið á móti því að stækka og efla stöðina í Hrísey. Fróðlegt væri reyndar að kanna hvernig sú atkvæðagreiðsla fór.

Þeirri lagasetningu um sóttvarnastöð í Hrísey getur Alþingi hvenær sem er breytt. Það eru ekki ákvæði um það í þessu stjórnarfrv. sem við ræðum hér, en komi fram frv. um að sóttvarnastöð skuli vera á Reykjanesi þá er sjálfsagt hægurinn á að setja hana í atkvæðagreiðslu eftir þinglega meðferð og kanna meiri hluta á Alþingi.

En ég hygg að að svo stöddu sé málið í eðlilegum og góðum farvegi og ég hvet hæstv. landbrh. til að slaka í engu á kröfum um sóttvarnir til að vernda dýr í landinu og önnur sem eru ókomin í landið þannig að við getum búið við það öryggi sem við viljum hafa, að dýrunum okkar, gæludýrunum sem öðrum, líði sem allra best í landinu.

Vitnað var hér áður í reglur Evrópusambandsins og sagt að við værum hugsanlega að brjóta þær með einangrunarstöðinni í Hrísey. En ég vil geta þess samt svona í lokin að víða er ill meðferð á skepnum í Evrópusambandslöndunum og ýmsir mættu nú taka betur til í sínum garði á þeim bæjum.