Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:28:22 (3406)

2000-12-14 15:28:22# 126. lþ. 49.15 fundur 190. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.) frv. 170/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér háttar svo til að um frhnál. er að ræða. Rétt er að málið snýst ekki um meirihlutaálit þar sem öll umhvn. stendur saman að einu nál. Hið undarlega við þetta mál er að þegar fyrra nál. var lagt fram í þinginu fyrir tveimur dögum lagði ég fram minnihlutaálit. Það álit byggðist eingöngu á því hversu brátt afgreiðslu þessa máls bar að, þ.e. það var afgreitt úr nefndinni þann 11. des., sama dag og umsagnarfrestur um frv. rann út. Eins og fram kemur í minnihlutaáliti mínu frá 11. des. voru komnar fram umsagnir um málið sem ekki hafði náðst að taka fyrir í umfjöllun nefndarinnar.

Umsagnir héldu áfram að streyma inn eðli málsins samkvæmt og alveg þangað til í gær. Í gær boðaði hv. þm. Kristján Pálsson, varaformaður hv. umhvn., til fundar í nefndinni vegna ákveðinna umsagna sem höfðu komið inn eftir að nefndin hafði lokið afgreiðslu sinni. Ég lít svo á að með þeim fundi hafi ákveðin mál skýrst og allar umsagnir verið teknar til umfjöllunar. Ég fagna því að fundurinn skyldi haldinn í gær. Hann er ástæðan fyrir því að ég skrifa undir nál. meiri hlutans, sem nú er þá orðið nál. umhvn., með fyrirvara þó.

[15:30]

Fyrirvarinn lýtur ekki núna einungis að afgreiðslu málsins og hraða þess heldur hef ég fyrst og fremst verið að bera fyrir brjósti 3. gr. frv. þar sem ég hef ákveðnar efasemdir. 3. gr. er breyting á 10. gr. laganna og er gert ráð fyrir að þar bætist við ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar veitt undanþágu frá einstökum greinum skipulagsreglugerðar.``

Herra forseti. Mér þykir afar mikilvægt að það sem kom reyndar fram í máli hv. flm., hv. þm. Kristjáns Pálssonar, komi fram hér og verði ítrekað, að einungis sé um að ræða tilvik sem eru smávægileg og alger undantekningartilvik.

Ég vil af þessu tilefni vitna í umsögn sem nefndinni barst frá Landvernd sem hefur áhyggjur af þessu sama máli en Landvernd telur að skoða beri sérstaklega undanþágur af þessu tagi. Landvernd leggur reyndar til í umsögn sinni að þetta ákvæði verði ekki samþykkt. Ef ég fæ að vitna í umsögn Landverndar, með leyfi forseta, þá segir þar:

,,Verði ekki tekið undir þessi sjónarmið telur Landvernd nauðsynlegt að setja slíkri undanþágu skýr mörk með því að tilgreina að allir hlutaðeigandi aðilar þurfi að fá tækifæri til að veita umsögn innan eðlilegra tímamarka og að slík heimild verði bundin við framkvæmdir er varða almannaheill vegna hættuástands eða þá og því aðeins að um afturkræfar framkvæmdir sé að ræða.``

Herra forseti. Ég vil einungis að það komi fram í þessari umfjöllun að ég er sammála tillögu Landverndar. Ég lít svo á að nefndin hafi í umsögn sinni tekið undir inntak þeirrar umsagnar vegna þess að hér var nefndin sammála um að einungis væri um að ræða smáatriði og alger undantekningartilvik.

Sama má eflaust segja um 8. gr. frv. en þar er einnig bætt við málsgrein við 37. gr. laganna og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar veitt undanþágu frá einstökum greinum byggingarreglugerðar.``

Varðandi þessa grein frv. fékk umhvn. einnig athugasemd frá Brunamálastofnun sem telur að þegar um er að ræða mál er snerta brunavarnir ætti að leita til Brunamálastofnunar varðandi undanþágur af þessu tagi. Undir það get ég tekið, herra forseti, og tel að hægt sé að taka þetta mál upp aftur þegar allur lagabálkurinn kemur til endurskoðunar eftir áramótin.

Varðandi það, herra forseti, má náttúrlega segja sem svo að umfjöllun umhvn. um þetta mál hafi einkennst talsvert mikið af því að hér sé um stórmál að ræða sem þurfi meiri tíma og frekari umfjöllunar við. Ástæður fyrir breytingartillögunum sem nefndin leggur fram eru í raun og veru þær að ekki hefur unnist tími í nefndinni á þessum skamma tíma sem gefinn er fyrir afgreiðslu málsins að fara inn í þau flóknu mál eins og löggildingarferlið og þau mál sem 7. gr. frv. fjallar um. Ég fagna því að nefndin skuli afgreiða þetta mál svona að veigamestu málin skuli í raun og veru geymd til endurskoðunarinnar. Ég legg á það áherslu, herra forseti, að umhvn. er tilbúin til að taka lagabálkinn allan, skipulags- og byggingarlögin, til endurskoðunar eftir áramótin. Ég ítreka þá jafnframt, herra forseti, að það verði ekki gert í einum blóðspreng eins og þetta mál er afgreitt núna og eins og málin sem voru afgreidd í tengslum við þessi sömu lög á síðasta vorþingi heldur að nú verði í endurskoðuninni veitt það svigrúm, það ráðrúm og sá eðlilegi tími sem nefndin kemur til með að þurfa til vinnu sinnar.

Þá vil ég áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, einungis geta um umsögn frá arkitektum en nefndinni barst umsögn frá Félagi arkitekta eða laganefnd Félags arkitekta sem fjallar um löggildingu prófa hönnuða og reyndar fleiri atriði. Ég vil láta þess getið hér að ég lít svo á að umsögn arkitektafélagsins sé fullgild og verði tekin til skoðunar þegar endurskoðun lagabálksins í heild verður tekin fyrir eftir áramótin. Sama má raunar segja um aðrar þær umsagnir sem okkur hafa borist og eru ekki teknar til efnislegrar afgreiðslu núna að þá koma þær til með að verða endurnýjaðar eða fullgildar þegar við tökum lagabálkinn allan til endurskoðunar.

Hef ég þá lokið við að gera grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég hef við afgreiðslu þessa frv. og lýsi þar með því hvers vegna ég rita undir nál. umhvn. með fyrirvara.