Útlendingar

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 16:05:59 (3411)

2000-12-14 16:05:59# 126. lþ. 49.18 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um útlendinga. Frv. þetta felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, og er ætlað að leysa þau af hólmi.

Ekki þarf að fjölyrða um að endurskoðun á lögum um eftirlit með útlendingum er orðin löngu tímabær. Brýnt er að ný löggjöf sem tekur mið af ríkjandi aðstæðum taki gildi. Þótt lög um eftirlit með útlendingum hafi í tímans rás tekið ýmsum breytingum svarar sú löggjöf engan veginn þörfum nútímaþjóðfélags.

Endurskoðun á lögunum um eftirlit með útlendingum á sér nokkurn aðdraganda. Frv. er samið í ráðuneytinu og hefur vinna við undirbúning og samningu þess tekið allnokkurn tíma. Drög að frv. voru send ýmsum aðilum vorið 1998. Umsagnir, athugasemdir og ábendingar sem bárust ráðuneytinu voru síðan teknar til nánari athugunar. Í kjölfarið var frv. lagt fram á Alþingi til kynningar vorið 1999. Eftir það var frv. tekið til frekari athugunar í ráðuneytinu og hafa verið gerðar á því ýmsar breytingar. Þær breytingar leiða einkum af þátttöku landsins í Schengen-samstarfinu en frv. sem kynnt var á Alþingi vorið 1999 tók ekki mið af reglum á vettvangi Schengen-ríkjanna.

Frv. til laga um útlendinga hefur að geyma reglur um réttarstöðu útlendinga hér á landi, við komu þeirra, dvöl og brottför. Með hliðsjón af þessu gildissviði nýrra laga er lagt til að þau vísi til útlendinga almennt en vísi ekki eingöngu til eftirlits með útlendingum eins og gildandi löggjöf. Til samræmis við þetta er einnig lagt til að Útlendingaeftirlitið sem annast hefur framkvæmd laganna fái nýtt heiti og verði stofnunin nefnd Útlendingastofnun.

Við samningu frv. hefur verið tekið tillit til almennrar þróunar á löggjöf undanfarin ár og viðhorfi til málefna útlendinga. Í þeim efnum hefur verið litið til þróunar á sviði stjórnsýsluréttar og mannréttinda svo og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku, aðildar að ýmsum mannréttindasamningum og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Þá tekur frv. mið af 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar svo sem henni var breytt árið 1995. Í því ákvæði segir að með lögum skuli skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

Þetta ákvæði leggur þá skyldu á löggjafann að setja lög um þetta efni og girða þar með fyrir að framkvæmdarvaldið hafi að þessu leyti ákvörðunarvald án skýrra lögákveðinna skilyrða. Á hinn bóginn hefur löggjafinn frjálsar hendur um efni slíkra skilyrða innan þeirra marka sem leiðir af stjórnlögum og alþjóðlegum skuldbindingum.

Í samræmi við þann áskilnað stjórnarskrár um efni laga um útlendinga sem hér hefur verið rakinn hefur frv. að geyma allar meginreglur á þessu sviði. Hins vegar er gert ráð fyrir að þær reglur verði í ýmsum atriðum útfærðar nánar í reglugerð og er þá jafnan tilgreint á hvaða sviði þau reglugerðarákvæði eiga að gilda. Með þessu hafa stjórnvöld ótvíræða heimild til að setja nauðsynlegar reglur samhliða því að afmarka glögglega efni slíkra reglna. Þetta felur í sér vandaða lagasetningaraðferð sem miðar að því að ákvarðanir stjórnvalda byggist á reglum og samræmi og að þær reglur sem gildi taki hæfilegt mið af breytilegum aðstæðum hverju sinni innan þeirra marka sem lög ákveða.

Herra forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir er nokkuð að vöxtum og hefur að geyma 57 efnisgreinar í stað 22 í gildandi lögum. Einnig fylgir frv. greinargerð þar sem rakin er þróun löggjafar hér á landi á þessu sviði og gerð er ítarleg grein fyrir helstu þjóðréttarsamningum sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra. Þá eru þeir þjóðréttarsamningar sem Ísland er bundið af birtir sem fylgiskjöl með frv. auk þess sem í frv. er að finna ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um málefni útlendinga hér á landi. Með þessu móti er leitast við að leggja málið fram eins aðgengilega og unnt er með ítarlegum upplýsingum. Ég mun nú rekja efni frv. í helstu atriðum.

Í I. kafla frv. eru almenn ákvæði um gildissvið nýrra laga um útlendinga og um tilgang laganna. Í 1. gr. segir að ákvæði laganna gildi um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi. Hér er á hinn bóginn ekki vikið að heimild til farar úr landi. Ástæðan er sú að samkvæmt 3. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar verður engum meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara. Þetta kemur hins vegar ekki í veg fyrir að settar verði reglur um eftirlit með brottför úr landi svo sem gert er í frv.

Í 2. gr. segir síðan um tilgang laganna að þau veiti heimild til að hafa eftirlit með komu til landsins og för úr landi og með dvöl útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni. Sú stefna sem frv. vísar hér til gerir ráð fyrir að stjórnvöld mótist á hverjum tíma eftir breytilegum aðstæðum. Þannig er gert ráð fyrir ákveðnu svigrúmi fyrir stjórnvöld í þessum efnum en það svigrúm er nauðsynlegt til að unnt sé að taka mið af ástandi atvinnumarkaðarins hverju sinni, almennri stefnu í utanríkismálum og atriðum sem varða öryggi ríkisins. Á hinn bóginn legg ég ríka áherslu á að frv. miðar að því að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, dveljast hér eða sækja um leyfi samkvæmt lögunum. Þetta er beinlínis tekið fram í 2. mgr. 2. gr. frv.

Í 3. gr. er mælt fyrir um hvaða stjórnvöld annist framkvæmd laganna.

Í II. kafla frv. eru reglur um komu til landsins og brottför. Um þessi ákvæði má almennt segja að þau taki mið af þeim reglum sem gilda í Schengen-samstarfinu. Þær reglur gera almennt ráð fyrir samræmdu eftirliti ríkjanna á ytri landamærum Schengen-svæðisins og að fellt verði niður persónueftirlit með einstaklingum á ferð um innri landamæri þess. Ákvæði frv. að þessu leyti eru í öllu hliðstæð við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um eftirlit með útlendingum með lögum nr. 25/2000 sem taka eiga gildi þann 25. mars nk. þegar Ísland og önnur Norðurlönd hefja þátttöku í Schengen-samstarfinu.

Samkvæmt 4. gr. frv. skal hver sá sem kemur til landsins þegar í stað gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Einnig skal hver sá sem fer af landi brott sæta brottfarareftirliti. Þetta gildir þó ekki um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins eins og beinlínis er tekið fram í ákvæðinu.

Þá segir að koma og för úr landi skuli fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem dómsmrh. ákveður en að för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins sé heimil utan viðurkenndra landamærastöðva. Þessum ákvæðum frv. er hagað í samræmi við 2. og 3. gr. Schengen-samningsins.

Í þessu sambandi vil ég taka fram að afnám persónueftirlits á landamærum hefur engin áhrif á tollgæslu. Þá er þess og að geta að heimilt er að setja reglur um undantekningu frá frjálsri för um innri landamæri Schengen-svæðisins og er það í samræmi við Schengen-reglur sem heimila að taka upp tímabundið persónueftirlit af innri landamærum vegna allsherjarreglu eða þjóðaröryggis.

Í 5. gr. frv. er fjallað um að útlendingur sem kemur til landsins skuli, nema annað sé ákveðið, hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki.

Í 6. gr. eru síðan ákvæði um vegabréfsáritanir og þar er lagt til að lögfest verði sú meginregla að útlendingur þurfi vegabréfsáritun nema annað sé ákveðið. Þó er gert ráð fyrir undanþágum frá vegabréfsáritun, t.d. með samningum við ríki um gagnkvæma undanþágu en í þessum efnum hafa Schengen-ríkin mótað sameiginlega stefnu gagnvart öðrum ríkjum.

Þá er í 7. gr. frv. að finna sérreglu um áhafnir skipa og loftfara.

[16:15]

Í III. kafla frv. er að finna ákvæði um dvöl og búsetu. Þessar reglur lúta m.a. að því hverjir megi dveljast hér án dvalarleyfis og hverjir þurfi dvalarleyfi og hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til að fá slíkt leyfi. Skv. 8. gr. frv. má útlendingur, sem fengið hefur dvalarleyfi, ekki dveljast hér lengur en þann tíma sem áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Þeir útlendingar sem ekki þurfa vegabréfs\-áritun mega hins vegar dveljast hér án leyfis í þrjá mánuði frá komu til landsins. Þeir útlendingar sem ætla að dveljast hér lengur en heimild stendur til skv. 8. gr. eða ætla að ráða sig í vinnu eða stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi þurfa dvalarleyfi. Þetta á þó ekki við um norræna ríkisborgara en þeir eru undanþegnir áskilnaði um dvalarleyfi í samræmi við samkomulag Norðurlandanna um það efni frá árinu 1954.

Samkvæmt 10. gr. skal dvalarleyfi sem veitt er í fyrsta sinn hafa verið gefið út áður en komið er til landsins. Það er eðlileg krafa að aflað sé slíks leyfis áður en komið er til landsins. Þó er gert ráð fyrir að frá þessu megi víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með en það gæti t.d. átt við ef um er að ræða náin fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi.

Í 11. gr. frv. er mælt fyrir um þau skilyrði sem fullnægja þarf til að útlendingur geti fengið dvalarleyfi. Þessi skilyrði eru að útlendingur hafi trygga framfærslu, sjúkratryggingu og húsnæði. Einnig þarf útlendingur að fullnægja skilyrðum fyrir dvalarleyfi sem gert er ráð fyrir að verði sett skv. 1. mgr. 3. gr. Enn fremur mega ekki liggja fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því að þrátt fyrir þessi skilyrði dvalarleyfis er að finna heimild í 2. mgr. 11. gr. til að veita útlendingi dvalarleyfi þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla við landið.

Í 12. gr. frv. er að finna nýmæli um svokallaða sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti tekið ákvörðun um að beita ákvæðum greinarinnar sem fela í sér heimild til að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Gert er ráð fyrir að þessi heimild verði tímabundin og standi þar til aðstæður breytast í viðkomandi ríki. Þessi grein á sér fyrirmynd í norskum útlendingalögum og beittu Norðmenn þeirri heimild vegna flóttamanna frá Kosovo.

Í 13. gr. frv. er að finna mikilvægt ákvæði sem miðar að því að sameina fjölskyldur. Í þessu ákvæði er kveðið á um rétt útlendings til að fá dvalarleyfi ef hann telst til nánustu aðstandenda íslensks ríkisborgara, annars norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi eða búsetuleyfi. Hér er sérstaklega haft í huga að réttur manna til friðhelgis einkalífs og fjölskyldu nýtur verndar skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í 13. gr. frv. er tekið fram að nánustu aðstandendur í skilningi ákvæðisins teljast maki, sambúðarmaki, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali og á þeirra framfæri.

Í 15. gr. frv. er að finna nýmæli en þar er fjallað um svokallað búsetuleyfi sem felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar. Samkvæmt ákvæðinu á útlendingur, sem dvalist hefur hér á landi í þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum, rétt á að fá útgefið búsetuleyfi ef ekki liggja fyrir ástæður sem valdið geta því að honum verði vísað úr landi. Ég legg áherslu á að ákvæðið mælir fyrir um rétt útlendings til að fá búsetuleyfi að fullnægðum settum skilyrðum og því miðar ákvæðið að því að styrkja réttarstöðu útlendinga sem dvalið hafa hér til lengri tíma.

Í ákvæðinu segir að réttur til búsetuleyfis sé bundinn því að útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Markmiðið með slíku ákvæði er að veita útlendingi innsýn í tungumálið til að auðvelda honum að aðlagast íslensku þjóðfélagi.

Þótt eðlilegt sé að gera kröfu um að þeir sem leita eftir búsetuleyfi hafi sótt slíkt námskeið er ekki gert ráð fyrir að útlendingur fullnægi einhverjum sérstökum kröfum um námsárangur. Vitanlega er með öllu óraunhæft að ætlast til þess að útlendingur hafi náð góðum tökum á málinu eða geta talað það reiprennandi. Hér er einungis verið að leitast við að treysta stöðu tungunnar með því að tryggja að ákveðinni fræðslu verði komið á framfæri við alla þá sem hafa hug á því að búa hér á landi til langframa. Í frv. er gert ráð fyrir að ráðherra mæli í reglugerð nánar fyrir um námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Ég tel rétt að hv. allshn. gefi þessari tillögu frv. sérstakan gaum og meti hvort tilefni sé til að kveða nánar á um þetta námskeið í frv. eða gera aðrar viðeigandi breytingar á þessum ákvæðum frv.

Í niðurlagi III. kafla frv. eru síðan ákvæði í 16. gr. um heimild til að afturkalla dvalarleyfi eða búsetuleyfi útlendings og í 17. gr. um tilkynningarskyldu útlendings sem kemur til landsins og áður hefur fengið dvalarleyfi. Einnig er mælt fyrir um tilkynningarskyldu útlendings sem flytur heimili sitt meðan mál samkvæmt lögunum er til meðferðar.

Í IV. kafla frv. er fjallað um frávísun og brottvísun útlendings. Þessi ákvæði frv. eru mun ítarlegri en ákvæði gildandi laga. Við samningu þessa kafla hefur verið tekið mið af reglum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og Schengen-samningsins en báðir þessir samningar hafa að geyma ákvæði um rétt útlendinga til komu og dvalar í aðildarríkjunum. Löggjöf ríkjanna verður því að vera samræmd að þessu leyti innan þeirra marka sem ríkin hafa skuldbundið sig til.

Í 18. gr. frv. er að finna heimild til að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum þar á eftir. Í greininni er síðan afmarkað við hvaða aðstæður útlendingi verði vísað frá án þess að ég ætli að rekja það hér í einstökum liðum.

Samkvæmt 22. gr. frv. tekur lögregla ákvörðun um frávísun á grundvelli 18. gr. nema í þeim tilvikum þegar útlendingi er vísað frá á grundvelli j-liðar 1. mgr. 18. gr. um frávísun vegna allsherjarreglu, þjóðaröryggis eða alþjóðasamskipta ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu eða þegar útlendingur ber því við að hann sé flóttamaður. Í þeim tilvikum tekur Útlendingastofnun ákvörðun. Einnig tekur Útlendingastofnun ákvörðun skv. 19. gr. frv. um frávísun eftir komu til landsins þegar sjö sólarhringa fresturinn sem áskilinn er í 18. gr. er liðinn. Á þeim grundvelli má þó ekki vísa frá landi útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi.

Í 20. gr. frv. er fjallað um brottvísun útlendings. Skilyrði þess eru að útlendingur hafi brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna eða komið sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Einnig er brottvísun heimil ef útlendingur hefur á síðustu fimm árum afplánað eða verið dæmdur til refsingar erlendis fyrir háttsemi sem getur að íslenskum lögum varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir jafnalvarlegt brot. Þá er og brottvísun heimil ef hún þykir nauðsynleg vegna öryggis ríkisins.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því að heimild til brottvísunar er takmörkuð ef það mundi með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendings við landið fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans. Einnig er heimild til brottvísunar takmörkuð þegar útlendingur hefur dvalarleyfi eða er norrænn ríkisborgari sem átt hefur heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði. Í þeim tilvikum er áskilið að sú refsiverða háttsemi sem getur legið til grundvallar brottvísun geti varðað eins árs fangelsi eða meira.

Samkvæmt 21. gr. frv. er lagt bann við því að útlendingi sem fæddur er hér á landi og hefur átt hér fast heimili óslitið síðan verði vísað frá landi eða úr landi. Einnig er útlendingum með búsetuleyfi veitt rík réttarvernd að þessu leyti. Þeim verður ekki vísað úr landi nema það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða ef útlendingur hefur afplánað eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað meira en þriggja ára fangelsi og brot hafi átt sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi. Þá er heimild til brottvísunar útlendings með búsetuleyfi ekki heimil ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans.

Í V. kafla frv. er fjallað um málsmeðferðina. Um það efni eru gildandi lög fátækleg. Eins og beinlínis kemur fram í 23. gr. frv. er gert ráð fyrir að málsmeðferðin fari í meginatriðum eftir stjórnsýslulögum. Þó er í einstökum atriðum gert ráð fyrir að sérreglur gildi um málsmeðferðina sem víkja frá stjórnsýslulögum að því marki sem nauðsynlegt er.

Í 24. gr. frv. er fjallað um andmælarétt útlendings. Það ákvæði er samhljóða 13. gr. stjórnsýslulaga að öðru leyti en því að réttur útlendings til að tjá sig skriflega er ekki fyrir hendi þegar honum ber að tjá sig munnlega við vegabréfaeftirlitið eða lögreglu. Á hinn bóginn mælir ákvæðið fyrir um rýmri rétt útlendings en leiðir af stjórnsýslulögum hvað það varðar að stjórnvald skal, eftir því sem unnt er, sjá um að útlendingurinn eigi kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á tungumáli sem hann getur tjáð sig á svo að viðunandi sé í máli vegna umsóknar um hæli eða í máli þar sem ákvæði 45. gr. frv. á við svo og í máli er varðar frávísun eða brottvísun.

Í 25. gr. frv. er lögð ríkari leiðbeiningarskylda á stjórnvöld en leiðir af 7. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu ákvæði frv. segir að stjórnvald skuli leiðbeina útlendingi um mál er varða frávísun, brottvísun, afturköllun leyfis eða þar sem leitað er hælis um rétt útlendings til að leita, á eigin kostnað, aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa, um rétt hans til að fá sér skipaðan talsmann þegar það á við og um rétt hans til að hafa samband við fulltrúa heimalands síns, fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannúðar- eða mannréttindasamtaka hér á landi.

Í 26.--28. gr. frv. er fjallað um miðlun upplýsinga úr landi. Vanhæfi opinbers starfsmanns til að fara með mál samkvæmt lögunum við ákveðnar aðstæður og gagnaöflun fyrir dómi.

Í 29. gr. frv. er síðan fjallað um rannsóknarúrræði vegna mála samkvæmt lögunum. Það ákvæði veitir stjórnvöldum heimildir til rannsóknaraðgerða eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

Í 30. gr. frv. er að finna heimild til stjórnsýslukæru en lagt er til að ákvörðun lögreglu verði skotið til Útlendingastofnunar. Ekki er gert ráð fyrir að unnt verði að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar sem æðra stjórnvalds. Þegar Útlendingastofnun tekur hins vegar ákvörðun á fyrsta stigi verður unnt að skjóta máli til ráðuneytisins. Þá er lagt til í þessari grein frv. að kærufrestur verði 15 dagar. Hér er vikið frá almenna kærufrestinum sem er þrír mánuðir en sá frestur þykir of langur í þessum málum.

Í 31. og 32. gr. er fjallað um hvenær ákvörðun á máli útlendings geti komið til framkvæmdar. Sú meginregla gildir í stjórnsýslurétti að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í þessum greinum frv. er í ákveðnum tilfellum vikið frá þeirri meginreglu útlendingnum til hagsbóta. Þannig verður ákvörðun ekki framkvæmd fyrr en hún er endanleg þegar um er að ræða synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða búsetuleyfis enda hafi verið sótt um það innan tilskilins frests. Sama á við um afturköllun leyfis skv. 16. gr. og ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi eða norræns ríkisborgara sem dvalið hefur hér lengur en þrjá mánuði. Þá má ekki framkvæma ákvörðun fyrr en hún er endanleg ef útlendingur ber því við að hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir sem leitt geta til að hann teljist flóttamaður. Um framkvæmd ákvörðunarinnar eru svo nánari ákvæði í 33. gr. frv.

Í 34. gr. er að finna það nýmæli að við ákveðnar aðstæður skal skipa útlendingi talsmann. Þegar þess er krafist að útlendingur sæti gæslu eða þegar beitt er úrræðum 3. mgr. 33. gr. gildir sú almenna regla að skipa skal honum talsmann úr hópi lögmanna. Einnig á útlendingur almennt rétt á að stjórnvöld skipi honum talsmann þegar kærð er ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis og í máli vegna umsóknar um hæli. Í frv. er lagt til að útlendingur verði að hluta til eða öllu leyti krafinn um endurgreiðslu kostnaðar við réttaraðstoð ef hann hefur ráð á því.

Í VI. kafla frv. eru reglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í kaflanum er lagt til að lögfesta verði meginreglu fyrir þennan hóp útlendinga en þær er nú að finna í sérstakri reglugerð. Þessi ákvæði frv. taka mið af viðeigandi EES-gerðum sem gilda um borgara EES-ríkjanna, maka þeirra og fjölskyldu. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þessi ákvæði nánar hér þar sem frv. felur ekki í sér neinar breytingar á gildandi reglum að þessu leyti.

[16:30]

VII. kafli frv. hefur að geyma reglur sem miða að því að tryggja réttarvernd þeirra sem leita hælis hér á landi sem flóttamenn. Í gildandi lögum er nánast ekkert vikið að flóttamönnum. Það er ekki síst þess vegna sem mikilvægt er að sett verði ný lög um réttarstöðu útlendinga. Ákvæði kaflans taka mið af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningum á sviði mannréttinda sem Ísland á aðild að. Verði frv. að lögum getur því ekki verið málum blandið að löggjöfin er í samræmi við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir á þessu sviði.

Samkvæmt 44. gr. frv. er lögð til grundvallarskilgreining flóttamannasamningsins á því hverjir teljist flóttamenn. Réttur til hælis hér á landi ræðst því af hinu alþjóðlega flóttamannahugtaki. Í almennum athugasemdum við frv. er fjallað um flóttamannahugtakið auk þess sem flóttamannasamningurinn er birtur sem fskj. með frv.

Í 45. gr. frv. er útlendingi tryggð sú vernd að verða ekki sendur til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Þessi vernd er ekki bundin við þá sem flóttamannasamningurinn tekur til í strangasta skilningi heldur skulu útlendingar einnig njóta samsvarandi verndar ef þeir eru í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri meðferð vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu. Í ljósi 3. gr. samningsins gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð þykir rétt að ganga lengra að þessu leyti en leiðir beinlínis af reglum flóttamannasamningsins. Rétturinn til verndar sætir þó takmörkunum ef ætla má að útlendingur sé hættulegur öryggi ríkisins eða ef hann hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu. Þetta á einnig við um þá sem gerst hafa sekir um glæpi gegn mannkyninu.

Samkvæmt 46. gr. frv. gildir sú meginregla að flóttamaður sem er hér á landi eða kemur til landsins á rétt á hæli hér á landi. Frá þessu er síðan vikið við ákveðnar aðstæður sem raktar eru í a--f-liðum. Ég vil láta það koma skýrt fram að þótt flóttamaður kunni í ákveðnum tilvikum ekki að eiga rétt á hæli hér á landi er stjórnvöldum vitanlega heimilt að veita viðkomandi hæli. Þessar undantekningar frá reglunni um rétt flóttamanns til hælis hér á landi eru skýrt afmarkaðar og styðjast allar við veigamikil rök. Hér er m.a. um að ræða regluna um fyrsta griðland og hliðstæðar reglur í norræna vegabréfaeftirlitssamningnum og Dyflinnarsamningnum. Þá vil ég láta þess getið að réttur aðstandenda flóttamanns er sérstaklega verndaður ef maki hans, sambúðarmaki eða börn undir 18 ára aldri eiga rétt á hæli hér nema sérstakar ástæður mæli því mót.

Í 47.--49. gr. frv. eru nánari ákvæði um réttindi flóttamanna sem miða að því að tryggja réttarstöðu þeirra í samræmi við flóttamannasamninginn.

Í 51. gr. eru svo ákvæði um heimild til að leyfa hópum flóttamanna að koma til landsins í samræmi við stefnu stjórnvalda. Þessi heimild er ekki bundin við flóttamenn heldur getur hún einnig tekið til hópa útlendinga sem ekki teljast til þeirra. Í þessum efnum hefur þeirri skipan verið komið á að ríkisstjórnin hefur að fenginni tillögu félmrh. tekið ákvörðun um að taka á móti hópi flóttamanna. Sú tillaga ráðherra hefur verið lögð fram á grundvelli tillagna flóttamannaráðs. Í því ráði eiga sæti fulltrúar frá fimm ráðuneytum, dóms- og kirkjumrn., heilbr.- og trmrn., menntmrn. og utanrrn. auk fulltrúa félmrn., en sá fulltrúi er formaður ráðsins.

Loks er í VIII. kafla frv. ákvæði sem lúta að öryggi ríkisins, upplýsinga- og tilkynningarskyldu útlendinga, um ábyrgð á kostnaði við að flytja útlending úr landi svo og refsiákvæði. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þessi ákvæði hér í einstökum atriðum.

Herra forseti. Ég hef gert nokkuð ítarlega grein fyrir því frv. um útlendinga sem hér liggur fyrir. Eins og ég vék að í upphafi ræðu minnar er frv. þetta mikið að vöxtum og varðar mikilvægt réttarsvið og því hefði verið unnt að ræða það í mun lengra máli. Ég mun hins vegar láta staðar numið en vil að lokum taka fram að ég legg mikla áherslu á að frv. verði vandlega rætt í hv. allshn. í kjölfar þess að það hefur verið sent hagsmunaaðilum til umsagnar. Mjög mikilvægt er að löggjöf um útlendinga taki eðlilegt tillit til mismunandi og oft og tíðum andstæðra hagsmuna og að um þá löggjöf ríki almenn sátt í þjóðfélaginu. Í þessum efnum getum við lært af reynslu margra þjóða sem sumar hverjar hafa þurft að glíma við alvarleg vandamál á þessu sviði.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.