Útlendingar

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 16:37:57 (3413)

2000-12-14 16:37:57# 126. lþ. 49.18 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. sem mörg okkar hafa lengi beðið eftir að yrði lagt fram á hinu háa Alþingi því að eins og allir vita hefur núgildandi löggjöf um útlendinga fyrir margt löngu runnið sitt skeið og því löngu tímabært að inn á hið háa Alþingi komi frv. sem ætlað er það hlutverk að leysa af hólmi þau lög sem nú gilda.

Ég vil þó nefna í upphafi vegna lokaorða hæstv. dómsmrh. að það frv. sem við ræðum hefur verið um nokkuð langt skeið í smíðum og það veit ég að ýmsir hafa haft á því möguleika að gera athugasemdir við þau drög sem voru nú að mestu leyti tilbúin í fyrra. Má þar nefna Mannréttindaskrifstofuna, Rauða krossinn og Amnesty International. En mér virðist við yfirlestur á frv. að ekki hafi í neinu verið tekið tillit til athugasemda sem þessir aðilar gerðu við drögin og að þau liggi nánast hér óbreytt eins og þau lágu fyrir í fyrra.

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég segja það almennt að þegar frv. er lesið þá virðist manni sem það gefi manni ekki skýra sýn á það hver stefna hæstv. ráðherra er í þessum efnum. Það er alveg ljóst að við erum að sigla inn í þá tíma, og má þar vitna til yfirlýsingar til að mynda framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins og fleiri, að fyrir liggur að til að halda uppi þeim lífskjörum og þeim lífsstandard sem við höfum haft nú undanfarna áratugi munum við þurfa að flytja inn verulegan fjölda útlendinga til að standa undir þeim hagvexti og hafa menn nefnt allt upp í töluna 30 þúsund manns í þeim efnum. Því hefði ég haldið að á þessum tímamótum væri mjög mikilvægt að við reyndum að móta almenna stefnu um það hvernig við ætlum að taka á móti útlendingum og hvernig við ætlum að leyfa þeim eða gefa þeim kost á því að aðlagast samfélagi okkar, enn fremur að þiggja það besta frá þeim sem við getum þegið. Því má segja sem svo að lög um útlendinga séu að nokkru leyti þær reglur sem við ætlum að setja í því skyni og beita til þess að taka á móti útlendingum. Þetta er eiginlega það fyrsta sem útlendingar sem hingað koma verða varir við. Það má kannski segja að gestrisni okkar birtist í þeim reglum sem lög um útlendinga geyma.

Það sjónarmið sem mér virðist vera undirliggjandi í þessum efnum er að við virðumst öll vera hrædd við útlendinga. Það virðist mér vera undirtónninn í þessum lögum því að reglurnar eru nánast undantekningarlaust þannig úr garði gerðar að mjög erfitt er að sjá hvernig framkvæmdin verður. Lítið sem ekkert er neglt niður í þessum lögum heldur er þetta mjög opið og hér er lagt til valdframsal til dómsmrh., með því mesta sem ég hef séð í nokkurri löggjöf eða tilraun til lagasetningar.

Ég hefði til að mynda viljað sjá að í þessum lagabálki væri einnig að finna ákvæði um atvinnuleyfi útlendinga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta fylgist að í einum lagabálki. Og af því að hæstv. ráðherra vitnaði til Norðmanna í framsöguræðu sinni þá held ég að rétt sé að vitna til þess að þannig hafa Norðmenn það. Þannig hafa Norðmenn ákveðið að hafa það og ég held að mikilvægt sé að búsetuleyfi og dvalarleyfi sé að finna í einum og sömu lögunum.

Það er hins vegar ekki ætlunin að gera hér og þykir mér það mjög miður vegna þess að ég lít svo á að nú sé einmitt tíminn til þess að setja okkur almenna stefnumótun um það hvernig við ætlum að taka á móti útlendingum og hvernig við ætlum að gefa þeim kost á því að aðlagast samfélagi okkar, enn fremur að þiggja frá þeim það sem þeir geta gefið okkur, enda held ég að um samfélag okkar megi almennt segja að það sé mun ríkara af því að hafa tekið á móti þeim útlendingum sem hingað hafa komið og sett verulegan svip á samfélagið, sérstaklega undanfarna tvo áratugi. Þess vegna finnst mér miður, virðulegi forseti, að við skulum ekki sjá í frv. heildstæða stefnu um það hvernig við ætlum að taka á móti útlendingum. Það er fyrsta gagnrýnisatriðið, virðulegi forseti, sem ég hef á þetta frv.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi vil ég nefna það líka að frv. byggir að meginstefnu til og leitar heimilda í 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að löggjafinn skuli setja lög um útlendinga.

Lög um útlendinga eru fyrst og fremst lög um mannréttindi, fyrst og síðast lög um mannréttindi, og þegar sett eru lög um slíka hluti þurfa þau að vera nákvæm og þau verða að vera skýr og menn verða að vita hvaða rétt þeir hafa og hvaða rétt þeir hafa ekki. Sú stefna virðist algerlega fyrir borð borin í frv., alveg gersamlega, því að hér er valdframsal slíkt að þegar ég fer yfir frv. þá virðist mér ráðherra á 30--40 stöðum í þessu frv. veitt heimild til setningar reglna. Þetta er algerlega í andstöðu og brýtur í bága við þá meginreglu að mannréttindi þurfi að vera skýr. Það er löggjafinn sem á að setja þessar reglur og mun ég á eftir í ræðu minni nefna nokkur dæmi um þetta.

[16:45]

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna nokkrar greinar í þessu frv. Ég hef ekki tíma til að fara mjög ítarlega yfir greinarnar en þær athugasemdir sem ég hef almennt við frv. eru að í fyrsta lagi er enga stefnumótun að finna um hvernig við ætlum að mæta þeirri þörf sem t.d. fulltrúar atvinnulífsins og atvinnurekendur telja fyrir útlendinga á næstu árum. Hér er enga almenna stefnu að finna í þeim efnum heldur er í meginatriðum rætt um að leita leiða til að stjórnvöld geti með einum eða öðrum hætti komið ,,óæskilegum`` útlendingum frá landinu.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, geri ég almenna athugasemd við hið óheyrilega valdaframsal í þessu frv. Þetta eru þær tvær meginathugasemdir sem ég geri við þetta frv.

Ég ætla nú að fjalla um nokkrar greinar þó það verði ekki tæmandi. Ég sit í hv. allshn. og mun hafa kost á að fjalla mjög ítarlega um þetta mál. Ég tel mjög mikilvægt að svo verði gert.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, þá vil ég benda á 10. gr. frv. Þar er kveðið á um að dvalarleyfi sem veitt er í fyrsta sinn skuli gefa út áður en komið er til landsins, að ef veita skuli dvalarleyfi skuli viðkomandi útvega sér það áður en hann kemur til landsins. Þetta er ekki í núgildandi lögum og verður að teljast dálítið sérstakt að herða þessi ákvæði svo frá því sem nú er. Vissulega getur það komið upp, virðulegi forseti, að einstaklingar sem hér dvelja óski síðar eftir því að fá dvalarleyfi. Mér finnst alveg ástæðulaust að gera það að skilyrði að dvalarleyfi sem veitt er í fyrsta sinn skuli gefið út áður en komið er til landsins. Ég tel enga ástæðu til að herða á þeim reglum sem nú gilda.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, get ég ekki orða bundist vegna a-liðar 11. gr. í þessu frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Veita má útlendingi dvalarleyfi, að fenginni umsókn, ef framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt, samkvæmt nánari reglum sem dómsmrh. setur.``

Hér er það alfarið sett í hendur dómsmrh. að ákveða hvenær veita megi útlendingi dvalarleyfi. Eins og ég nefndi áðan, virðulegi forseti, eru lög um útlendinga fyrst og fremst um mannréttindi. Ég tel það á engan hátt boðlegt að Alþingi framselji þannig valdið að dómsmrh. skuli einhliða veitt heimild til að ákvarða skilyrði fyrir dvalarleyfi. Mér finnst mikilvægt að Alþingi setji mjög nákvæmar reglur, eins nákvæmar og hægt er. Auðvitað verður aldrei hægt að setja algildar reglur þannig að ekki þurfi að veita ráðherra heimild til reglugerðarsetningar en fyrr má nú rota en dauðrota. Hér stendur einfaldlega að dómsmrh. setji bara nánari reglur og skilyrði fyrir dvalarleyfi. Ég held, virðulegi forseti, að þetta sé ein þeirra greina sem hv. allshn. þarf að taka mjög vandlega til skoðunar.

Þá vil ég, virðulegi forseti, fjalla um 18. gr. sem lýtur að frávísun og brottvísun við komu til landsins en þar segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu hans.``

Hér er fjallað um þær reglur sem fara á eftir þegar vísa á útlendingi frá landinu við komu til landsins, þ.e. honum er nánast snúið við í dyrunum ef svo má að orði komast. Hér má finna stórkostlegar reglur í stafliðum frá a--j og er hver annarri betri. Mig langar að nefna tvær þeirra og gefa hv. þingheimi dæmi. Nefna mætti d-lið 18. gr. en þar segir að vísa megi útlendingi frá landinu ef:

,,hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar.``

Ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvað hér er verið að fara, virðulegi forseti. Þurfa menn þá að flagga gullkortum eða platínukortum til að geta sýnt fram á að þeir geti séð fyrir sér og muni ekki lenda á sósíalnum? Hvað er átt við? Þetta er reyndar ákvæði sem þekkist víða en það er ekki þar með sagt að við eigum að taka það upp einnig.

Þá er ekki síður forvitnilegur g-liður 18. gr. en þar segir, með leyfi forseta, að vísa megi útlendingi frá ef:

,,hann samkvæmt mati þar til bærs heilbrigðisstarfsmanns er augljóslega haldinn alvarlegum geðtruflunum.``

Það er ekkert öðruvísi. Auðvitað, virðulegi forseti, koma þessi mál aldrei til skoðunar eins eða neins. Þessi mál verða einfaldlega afgreidd með því að snúa fólkinu við í dyrunum. Það hvernig fara á að þessum reglum skiptir miklu máli. Mál af þessum toga, hvað sem lögin segja, verða aldrei kærð nema í mjög sérstæðum tilvikum. Þau munu aldrei fá neina málsmeðferð. Þess vegna er mikilvægt að þessar reglur séu skýrar.

Hér er ég ekki að segja að við eigum að opna þetta og leggja þannig upp að hér sé nánast um vængjahurð að ræða. Ég held að við verðum leita einhvers konar millileiðar í þessu, að við byrjum a.m.k. á því að vera hæfilega gestrisin gagnvart þeim sem hingað vilja koma. Ef þetta land vantar eitthvað þá held ég að það vanti fólk. Ég held að hver sá sem flogið hefur yfir þetta land sjái að hér er aðallega landsvæði og lítið um hús, fátt um fólk.

Mér finnst, virðulegi forseti, að undirtónninn í því frv. sem hér er lagt fram sé nánast að okkur langi ekkert að fá hingað fólk. Heimildir stjórnvalda væru þannig úr garði gerðar, eins og einn ágætur embættismaður orðaði það á fundi allshn. fyrir skömmu, þægileg verkfæri til þess að losna við fólk. Það er ekkert öðruvísi, virðulegi forseti. Mér finnst að heyra megi þennan undirtón í þessu frv. og ég gagnrýni það harðlega.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki langan tíma og þarf að fara hratt yfir. Í 26. gr. er ætlunin að lögfesta ákvæði sem nýverið var lagt fyrir þingið með sérstæðum hætti. Þar er ætlunin í raun og veru að lögfesta ákvæði Dyflinnarsamningsins sem Ísland er ekki aðili að. Ætlunin er hins vegar að lögfesta reglur samningsins, sem hlýtur að vera einsdæmi í veröldinni, að þjóð ætli að lögfesta samning sem hún á ekki aðild að. Hér er þetta ákvæði komið inn að nýju í 26. gr. Það má vel vera að stjórnvöld séu í samningaviðræðum um þetta mál þannig að þetta ákvæði fái skýrari mynd á sig á síðari stigum. Svo er a.m.k. ekki í dag.

Vegna umfjöllunar minnar áðan um 18. gr. þá held ég að hún verði ekki lesin nema með hliðsjón af 31. gr. Samkvæmt 18. gr. yrði mönnum snúið við í dyrunum. En í 1. málsl. 1. mgr. 31.gr. segir:

,,Ákvörðun um frávísun skv. 18. gr. má framkvæma þegar í stað.``

Miklu máli skiptir að vandað sé til við að ákveða skilyrðin um hvenær snúa megi mönnum frá og hvenær ekki. Enn fremur, virðulegi forseti, verður að vanda til kennslu og námskeiða fyrir þá aðila sem eiga að framfylgja þessum. Frv. sem hér liggur fyrir er svo opið í alla enda að það væri nánast hægt að framfylgja lögunum eins og mönnum sýndist. Mér sýnist það líka vera hugsunin með framlagningu þessa frv., að menn geti haft þetta nánast að eigin geðþótta.

Hratt flýgur stund, virðulegi forseti. Ég ætla líka að minnast á 45. gr., í kafla VII sem fjallar um flóttamenn. Það er náttúrlega einn almikilvægasti kafli þessa frv. Hér er fjallað um vernd gegn ofsóknum, þ.e. greinin fjallar m.a. um að ekki megi senda útlending til baka við tilteknar aðstæður en svo kemur stórkostlegt ákvæði:

,,Útlendingur nýtur ekki verndar skv. 1. mgr. ef ætla má að hann sé hættulegur öryggi ríkisins ...``

Hver ætlar að meta það, virðulegi forseti? Það skyldu þó ekki vera stjórnvöld sjálf? Þannig er alveg sama hvar opnað er fyrir að útlendingur sem hingað kemur fái að njóta vafans, alltaf skal a.m.k. tryggt einhvers staðar að því sé ekki ofgert. Hér segir einmitt að ef ætla má að hann sé hættulegur öryggi ríkisins þá gildi ekki það sem á undan er sagt.

Hér eru hinar vísustu reglur með, virðulegi forseti. T.d. í 46. gr.:

,,Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að útlendingur sem sækir um hæli skuli dveljast í tilteknu sveitarfélagi ...`` Ekki er það nú til þess að efla trú manna.

Virðulegi forseti, þar sem tími minn er alveg að verða búinn, þá er ekki hægt annað en að bera niður í 53. gr. Þar er m.a. kveðið á um að útlendingur skuli hafa á sér vegabréf ef hann skyldi verða stöðvaður af lögreglunni, þá skal tryggt að hann hafi vegabréfið með sér svo hann geti gert grein fyrir sér. Það er náttúrlega spurning, virðulegi forseti, hvort hann eigi ekki bara að ganga með hvítan hatt svo öruggt sé að menn fari ekki í neinar grafgötur um að þar sé útlendingur á ferðinni.

Virðulegi forseti. Mér finnst svona ákvæði hreinlega þess eðlis að það sé alvarlegt að leggja slíkt fyrir þingið.