Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:07:11 (3422)

2000-12-15 11:07:11# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ef við trúum á lýðræði hljótum við að trúa því að sú niðurstaða sem fæst í almennum kosningum skili niðurstöðu sem er eins nálægt lýðræði og hægt er þannig að meiri hluti á Alþingi sé eins nálægt því að standa fyrir meiri hluta þjóðarinnar og hægt er. Það er örugglega ekki tilfellið með þá sem semja kjarasamninga.

Við búum við það kerfi að hafa samsteypustjórnir þannig að menn þurfa stöðugt að taka tillit til sjónarmiða annarra flokka. Þannig kemst því miður aldrei fram hrein stefna.

En við búum við annað sem ég hef einnig bent á. Það er sérfræðingaveldið. Þjóðfélagið er orðið svo flókið að öll meiri háttar frv. eru samin af sérfræðingum. Ég nefni t.d. frv. sem við höfum nýverið fjallað um varðandi gjaldtöku til Fjármálaeftirlitsins. Það er svo flókið mál að eiginlega getur enginn sett sig inn í það nema Fjármálaeftirlitið sjálft. Frv. er þannig meira eða minna samið af þeim sem það á að eiga við og fjalla um. Þetta er mjög hættulegt vegna þess að borgarinn er berskjaldaður gagnvart slíku sérfræðingavaldi. Þeir sem framfylgja lögum, t.d. samkeppnislögum, eru sérfræðingar á sínu sviði og eru þeir einu sem geta fjallað um og sett saman frv. um það mál. Þetta er mjög hættulegt. Það framtaksleysi sem einkennir löggjöf Alþingis er mjög hættuleg lýðræðinu og við höfum ekki leyfi til að afsala okkur því valdi sem þjóðin hefur veitt okkur.