Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:14:15 (3425)

2000-12-15 11:14:15# 126. lþ. 50.8 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv. 151/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. styðja nál það sem hér var kynnt af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni og þær brtt. sem nefndin flytur við frv. um jöfnun flutningskostnaðar á sementi. Í umræðunni komu fram ýmsar athugasemdir um að lögin væru barn síns tíma og fram þyrfti að fara heildarendurskoðun á ákvæðum þeirra enda hefur ýmislegt breyst frá árinu 1973 þegar lögin voru sett. Lögin hafa vissulega tekið breytingum síðan en það þyrfti að endurskoða markmið þeirra. Ég hef því ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmundi Jónassyni flutt tillögu þess efnis að við bætist svohljóðandi bráðabirgðaákvæði:

,,Lögin skal endurskoða innan árs frá gildistöku þessara laga.``

Við umræðu um málið kom fram að flestum er ljóst að ýmislegt hefur breyst í byggingarframkvæmdum frá því að lögin voru sett. Menn eru m.a. farnir að notast við ýmiss konar múrblöndur þar sem ekki er sérstaklega getið um hvort sement er í viðkomandi blöndu eða ekki. Innlend fyrirtæki framleiða þessar múrblöndur eða viðgerðarefni úr sementi. Annað er staðsett í Reykjavík og hitt er í Þorlákshöfn. Samkeppnisstaða þeirra versnaði með því að þeim var gert að greiða flutningsjöfnunargjald af sementi. Efnið hafði hins vegar verið flutt inn í miklu magni og ekki greitt flutningsjöfnunagjald af því. Menn töldu það útilokað þar sem þess væri ekki alltaf getið hvort sement væri í þessum blöndunarefnum eða ekki.

Niðurstaða okkar, virðulegi forseti, í nefndinni, þó að við styðjum fyllilega afgreiðslu nefndarinnar á frv. og þær brtt. sem fluttar eru, er að mikil nauðsyn sé að taka lögin til heildarendurskoðunar þar sem þau eru barn síns tíma. Við leggjum til að sú endurskoðun eigi sér stað innan árs.