Útflutningsráð Íslands

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:17:29 (3426)

2000-12-15 11:17:29# 126. lþ. 50.9 fundur 324. mál: #A Útflutningsráð Íslands# (markaðsgjald) frv. 167/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga breyting á lögum um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum.

Frv. þetta er afar einfalt í sniðum og felst í því að framlengja álagningu svokallaðs markaðsgjalds sem hefur verið nýtt til fjármögnunar á starfsemi Útflutningsráðs. Markaðsgjald er hluti af tryggingagjaldi eða lagt á samhliða því og á sama stofn.

Nefndin fjallaði um þetta mál með hefðbundnum hætti og taldi ástæðu til að framlengja þetta gjald. Ástæðan er sú að þokkaleg samstaða hefur verið um starfsemi Útflutningsráðs og þá fjármögnun sem var tekin upp með þeim breytingum sem urðu á sínum tíma þegar þessi stofn var tekinn upp en það var árið 1998. Því leggur meiri hluti nefndarinnar til að frv. yrði samþykkt óbreytt í því skyni að lengri tími gefist til að meta hvort ástæða sé til þess í framtíðinni að breyta um.