Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:40:02 (3428)

2000-12-15 11:40:02# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir sagði í upphafi ræðu sinnar að frv. þetta fæli í sér mikið eftirlit og mörg skilyrði. Ég verð að segja að ég tek undir það en ég fagna því um leið því að ég tel að það sé í lagi að hafa mikið eftirlit svo lengi sem það er sanngjarnt. Ég tel í lagi að setja fram mörg skilyrði svo lengi sem þau eru sanngjörn og með tilliti til allra mannúðarsjónarmiða. Ég segi líka eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir að maður er rétt búinn að hlaupa yfir frv. og við eigum eftir að fara vel yfir þetta í nefndinni en mér sýnist frv. vera mjög vandað og mikið í lagt. Eflaust má þó fara betur yfir það og við komum til með að gera það í nefndinni. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir að hafa farið mjög málefnalega yfir sviðið og rætt eitt og annað.

Ég hjó eftir því að hv. þm. ræddi m.a. um 29. gr. þar sem hv. þm. fann að gæsluvarðhaldi sem mætti ekki standa lengur en í 12 vikur samanlagt en við fyrstu sýn tel ég að það sé dómari sem metur þetta. Ég treysti því fullkomlega að dómari meti þau gögn sem fyrir hann eru lögð í hverju og einu tilviki þannig að ég kem ekki til með að efast um það nema annað komi til.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir kom með margar athyglisverðar ábendingar eins og um mannúðarsjónarmiðin. Ég get hins vegar ekki tekið undir að umsóknirnar eigi að vera áfram hjá utanrrn. Ég held að það sé betur farið að þetta sé allt á einum stað þar sem er yfirlit og yfirsýn yfir þetta, hverjir það eru sem sækja um en það er eðlilegt að viðkomandi sendiráð eða umboðsmenn sjái síðan um framkvæmdina erlendis.