Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:43:46 (3430)

2000-12-15 11:43:46# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér fer fram afskaplega mikilvæg umræða og mikilvægt frv. Það er auðvitað ankannalegt að vera að ræða það við 1. umr. á þessum degi sem átti að vera lokadagur þingsins en engu að síður ætti það að tryggja að þetta mál yrði tekið fyrir sem eitt af fyrstu málunum hjá allshn. þegar hún tekur til starfa að loknu jólahléi þingmanna.

Þetta frv. er allt annars eðlis en það frv. sem við ræddum fyrir viku og var gagnrýnt mjög sterklega að kæmi fram eitt og sér sem fjallaði um heimild samkvæmt Dyflinnarsamningi að endursenda hælisleitandi flóttamenn. Þetta er ítarlegt frv. um útlendinga. Eins og áður hefur verið rætt þegar við töluðum um málefni þeirra er mjög mikilvægt að lög, sem verða sett núna um útlendinga, spanni þann lagaramma sem snýr að flóttamönnum sem við höfum boðið velkomna hingað til lands og opnað faðminn fyrir. Það er oftast nær þannig að við höfum sent fólk okkar út og það hefur valið úr einhvern hóp. Undanfarið hefur verið valinn um það bil 30 manna hópur á ári sem er boðinn velkominn til að setjast að og greidd er gata þeirra til búsetu, oftast nær út á landsbyggðinni.

[11:45]

Þessi lagabálkur þarf að spanna öll réttindi hælisleitandi flóttamanna sem koma óvænt að og við erum ekki með opinn faðminn gagnvart, þvert á móti, og tryggja þarf lagaumhverfi þeirra sem flokkast undir erlent vinnuafl og koma hingað tímabundið, fólk sem kemur hingað til starfa af ýmsum ólíkum orsökum og hefur reynst vera mjög mikilvægt í þjóðlífi okkar og svo í fjórða lagi það fólk sem velur Ísland til búsetu og heyrir e.t.v. ekki til neins þessara þriggja hópa sem ég hef nefnt. Allshn. þarf að fara yfir frv. og kanna hvort það tryggi þann lagagrundvöll sem er svo mikilvægur fyrir þá hópa sem ég hef nefnt.

Þá er því ábótavant, herra forseti, eins og við fögnuðum því að þetta frv. kæmi á borð okkar þó seint væri, mjög ábótavant í sumum tilfellum. Því er ábótavant og það eru á því miklir megingallar. Þeir hafa verið dregnir fram hér. Í fyrsta lagi er í frv. allt of mikið framsal. Ráðherra er gefið vald til þess að taka á málum og Alþingi framselur vald til ráðherra. Þeir sem hafa farið ítarlega yfir frv. halda því fram að þar séu heimildir til meira en 30 reglugerða. Það er mjög mikið umhugsunarefni ef þetta er rétt vegna þess að það hefur verið að gerast á undanförnum árum að í æ ríkari mæli hafa menn reynt að komast fram hjá reglugerðarvaldinu og ekki síst vegna þess að með miklu reglugerðarvaldi er mjög auðvelt að fara út fyrir lagarammann. Fyrir hefur komið að umboðsmaður Alþingis hafi gagnrýnt það að Alþingi hafi sett lög með miklu framsali. Þegar við fáum á borð okkar frumvörp með lagabreytingum vegna þess að í ljós hafi komið að einhvers staðar sé hjá framkvæmdarvaldinu í framkvæmd eitthvað sem ekki hefur lagastoð þá er það vegna þess að við höfum verið of örlát með reglugerðarvaldið. Það er fullkomlega óþolandi, loksins þegar þetta frv. kemur inn í þingið eftir áralanga bið og eftirrekstur, ef það er svo þannig að allvíða og jafnvel á viðkvæmum stöðum er verið að ákveða að útfærslan verði svo ráðherrans. Það er ekki þannig sem við viljum hafa mannréttindamálin. Við viljum skapa mjög góðan mannréttindaramma um þau atriði sem heyra undir lög sem byggja á alþjóðasamningum þar sem mannréttindi eru í heiðri höfð. Þetta er fyrra atriðið og ég tek fram að ekki hef ég verið að telja reglugerðarheimildir. En þetta hefur þegar komið fram í umræðunni.

Í öðru lagi er skortur á stefnumótun í frv. Frv. er, eins og hér hefur komið fram, ítarlegt og víða er verið að taka á málum. Þá er spurningin: Hversu skelegglega er það gert? Hér hefur það verið orðað þannig að í of ríkum mæli sé verið að leita leiða til að stjórnvöld geti komið óæskilegum útlendingum úr landinu. Ef þetta er rétt þá ætla ég að leggja til að allshn. fari mjög ítarlega yfir frv. vegna þess að þetta má alls ekki verða það sem kemur út úr lögum frá Alþingi loksins þegar tekið er verulega á í málefnum útlendinga.

Svo hefur komið fram að atvinnuleyfisvinkillinn sé ekki í frv. Þá er væntanlega átt við að á skorti í lagaákvæðunum það sem snýr að umgjörð eða réttindum þess sem við köllum erlent vinnuafl. Á þessum síðustu annadögum þingsins er náttúrlega alveg ljóst að við höfum ekki öll getað lesið frv. ítarlega enda hefur það komið fram í máli allra sem hér hafa talað. En ef þetta er rétt þarf verulega að fara yfir þetta mál í allshn. og leiðrétta það sem leiðrétta þarf og taka á ef menn meina eitthvað með því að hafa mannréttindasjónarmið að leiðarljósi samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem við höfum undirgengist.

Herra forseti. Við vorum fyrir viku að ræða annað frv., 284. mál, frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum. Það var bara ein málsgrein.:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Í þeirri umræðu gagnrýndi sú sem hér stendur það harðlega að þarna væri verið að gefa Íslandi tækifæri til að firra sig ávallt ábyrgð ef við kysum svo vegna þess að ef við eigum alltaf möguleika á því að senda útlending til annars lands sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins --- í greinargerðinni kemur fram að það séu ESB-löndin og Noregur og Ísland --- þá þurfum við aldrei að taka þær erfiðu ákvarðanir sem fylgja því þegar við fjöllum um málefni hælisleitandi flóttamanns og ætlum e.t.v. að leita faglega réttlátra leiða. Þá er mjög einfalt og auðvelt, ef stjórnvöld á hverjum tíma óska þess, að senda til svokallaðs þriðja lands. Þá vaknar strax sú spurning vegna þess að þetta er málefni sem á heima í frv. sem við erum að fjalla um í dag að það verður að sjálfsögðu að taka afstöðu til þessa, þ.e. hvernig þetta verður orðað í lögunum sem verða sett samkvæmt þessu frv. Og þá ber fyrst á góma að við erum með stefnumótun frá því fyrir viku sem byggir á svokölluðum Dyflinnarsamningi, en þegar hefur komið fram í þessari umræðu að við erum ekki enn þá aðilar að Dyflinnarsamningnum.

Fyrsta spurning mín til hæstv. dómsmrh. er hvort ekki sé hárrétt að við séum ekki enn þá aðilar að Dyflinnarsamningnum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að verið er að vísa 7. gr. Schengen-samstarfsins inn í þennan Dyflinnarsamning. En það er líka alveg ljóst að þrátt fyrir þann samning getum við mótað okkar eigin reglur um flóttamenn og að sjálfsögðu um erlent vinnuafl og að sjálfsögðu um börn og aðbúnað allra þeirra sem hafa sest hér að og við þurfum að vernda. Við eigum því að sýna þann metnað að setja lög eins og við viljum hafa þau.

Spurning númer tvö lýtur jafnframt að þessu með hælisleitandi flóttamenn vegna þess að ráðherrann svaraði því ekki í stuttri fyrirspurn í umræðunni fyrir viku. Hún er þessi:

Þegar um hælisleitandi flóttamann er að ræða og við erum búin að lögfesta Dyflinnarsamninginn eða Schengen-samkomulagið og það er í slíkum samkomulagssamningum sem er að finna ákvæðið um þriðja ríkið, ekki í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, ekki í alþjóðlegu samningunum sem byggja á mannréttindum, þá verður það þannig að ef t.d. flóttamaður hefur komið frá einhverju þriðja ríki eins og við köllum þau --- við skulum segja að hann fari til Frakklands og kemur svo frá Frakklandi hingað, við skulum segja hann fljúgi frá París til Íslands --- þá er samkvæmt þessari reglu hægt að ákveða að endursenda þennan útlending til þessa örugga þriðja ríkis eins og þau eru flokkuð samkvæmt þessum samningum og senda hann aftur til Frakklands.

Ég spurði hæstv. ráðherra: Ef við ákvæðum þessa meginreglu, í hvaða tilfellum mundi slíkur einstaklingur, ef hann væri að biðja um hæli í Frakklandi, vera sendur til Íslands? Ég tel að hann yrði í engu tilfelli sendur til Íslands vegna þess að þetta svokallaða örugga þriðja ríki er þegar maður kemur frá staðnum sem hann er ofsóttur til lands númer tvö í Vesturheimi, í þessum svokölluðu öruggu löndum, fer þaðan til þriðja lands og það þriðja land gæti sent hann til baka. Við búum einfaldlega þannig að það er aldrei neinn að koma beint hingað frá þessum hættulegu löndum. Hann verður að koma við annars staðar. Þessu verða menn að gera sér grein fyrir. Það þýðir ekkert að vera með fallegar ræður á hátíðarstundum um mannréttindi, skilning og að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna og ætla að taka sinn skerf af því að huga að erfiðleikum fólks ef við erum aldrei í þeirri stöðu að vera þetta örugga þriðja ríki sem aðrir senda mann til en erum alltaf í þeirri stöðu sjálf að geta sent hann annað. Þetta er meginatriði sem ég saknaði í umræðunni fyrir viku og ég hlýt að taka það upp hér vegna þess að mér fannst ráðherrann ekki skilja hvað við væri átt og mér fannst aðrir þingmenn sem hlýddu á umræðuna ekki átta sig á því sem felst í reglunni um ,,safe third country`` eins og hún er ölluð í þessum samningum. Þetta er mjög mikið lykilatriði.

Herra forseti. Fyrir viku var ég mjög þakklát fyrir að það mál sem þá var rætt hafði ekki verið tekið fyrir á mánudeginum á undan og mér finnst að það hafi skipt máli. Þá var hér mjög góð og málefnaleg umræða um það frv. sem lá fyrir. Fyrirhugað var að afgreiða það mál og gera það að lögum fyrir jól. Nú hefur allshn. komist að þeirri niðurstöðu að það beri ekki að gera. Það mál bíður og nú erum við að ræða þetta stóra útlendingafrv. og það gefur okkur tækifæri til þess að skoða allar lagagreinarnar í samhengi, réttindamálin, ákvæði um endursendingu o.s.frv. þannig að enginn getur komið hér eftir á og sagt: ,,Við vissum ekki hvað við vorum að gera.`` Það hefði getað gerst í hinu tilfellinu ef við hefðum lögfest lagafrv. um hælisleitandi útlendinga eins og til stóð fyrir viku.

Ég er mjög ánægð með að þannig var haldið á málum og að ákvörðun hefur orðið um það að geyma hitt frv. og taka fyrir þetta brýna mál um réttindi útlendinga. Ég treysti því að allshn. fari mjög vel yfir umræðurnar hér og ábendingarnar þannig að það sé alveg ljóst að þau álitamál sem hefur verið hreyft hér verði tekin fyrir og að fyrir liggi pólitísk ákvörðun um að fara ekki mannréttindaleiðina heldur einhverja aðra leið ef það verður þá niðurstaðan.

Ég segi að við eigum að axla okkar ábyrgð eins og allir aðrir í samfélagi þjóðanna en ég vil nefna það að víða hafa menn mjög miklar áhyggjur af breyttri flóttamannapólitík í Evrópu. Það er verið að tala um það víða í mannréttindageiranum að Evrópa sé að víggirðast og loka sig af. Þetta er umfjöllun sem á sér stað líka þar sem fræðimenn eru að skoða stöðuna. Ég fékk ábendingu um þetta í fyrra vegna þess að vinkona mín er að læra þessi fræði í Bandaríkjunum og þar hafa komið fram viðamiklar skýrslur þar sem einmitt er bent á þetta og að verið sé að gera grundvallarbreytingu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að ef við gerum slíka grundvallarbreytingu þá erum við bara að skapa gífurleg vandamál í útjaðri Evrópu þar sem Evrópa er ystu landamæri, í löndum þar sem eru ystu landamæri. Þetta verður ekkert einfalt ef við ætlum að vinna samkvæmt milliríkjasamningum og Evrópusamningum. Ef það á að reisa víggirðingu alls staðar í kring þá mun sennilega aldrei reyna á þær áhyggjur sem ég er að setja hérna fram. Það mun ekki reyna á þær. En þetta eru mikil grundvallaratriði og miklar grundvallarspurningar hjá þjóð sem hefur mjög sterk mannréttindaákvæði í stjórnarskrá sinni. Þetta eru grundvallarspurningar þjóðar sem er í fararbroddi. Við höfum mörg hvatt utanrrh. okkar á hverjum tíma til að vera sterk mannréttindarödd á alþjóðavettvangi og það hefur verið ein af fjöðrunum í hatti núv. utanrrh. að hann hefur unnið sér nokkurn sess hjá mannréttindasamtökum einmitt vegna þess að hann hefur verið þessi rödd í Evrópuráðinu og víðar. Þetta er mjög mikilvægt. En ef við ætlum að vera þannig og viðhafa slíka umræðu þá er líka alveg ljóst að við verðum á sama tíma að setja þannig lög hjá okkur að við getum verið stolt af því að vísa til þeirra, stolt af því að við höfum litið til allra átta og að við séum að skapa umhverfi sem sé til sóma og að við ætlum að taka okkar skerf. En ef við ætlum ekki að hleypa fólki inn þá eigum við líka að hafa tryggt að á öllum sviðum hafi þeim sem hingað leita verið tryggður málsvari, öll lagaaðstoð, réttur til að tjá sig, túlkur og hvað eina það sem þarf til þess að það engin mistök verði gerð í efnis- og málsmeðferð þess sem hingað kemur.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta nægja við þessa umræðu. Ég fagna frv. Ég óttast þó að því sé mjög ábótavant en ég ætla að vona að allshn. bæti úr því sem er ábótavant í frv. og við getum sameinast um það, eins og við gerum oft í slíkum málum, að setja lög þar sem bæði stjórn og stjórnarandstaða standa saman að lagasetningunni. Ég vænti þess að þannig verði það nú.