Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 12:01:51 (3431)

2000-12-15 12:01:51# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[12:01]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég ætla hins vegar að fagna því að fram skuli koma heildarlöggjöf sem tekur til útlendinga þar sem fest eru í lög ákvæði sem snerta réttarstöðu þeirra. Ég fagna því einnig að þetta skuli gert á heildstæðan hátt og að frv. sem hér kom til umræðu í síðustu viku held ég að hafi verið, þar sem tekið er á einum sérstökum þætti skuli hafa verið sett í salt og verði tekið til afgreiðslu heildstætt með þessu frv. Þar var um að ræða lögfestingu á svokölluðum Dyflinnarsamningi sem að mínum dómi hefði veikt réttarstöðu útlendinga, hælisleitenda sem hingað kæmu til landsins, það hefði á engan hátt styrkt stöðu þeirra heldur veikt hana.

Okkur var sagt og ég efast ekki um að Dyflinnarsamþykktin eða sáttmálinn þurfi að fá lagastoð áður en Schengen-samkomulagið kemur til framkvæmda í marsmánuði, 25. mars mun það vera, en okkur ætti að gefast tími til að taka heildstætt á þessum málum áður og ég fagna því að það skuli verða gert.

Ljóst er að styrkja þarf réttarstöðu fólks sem hingað kemur en ég vil þó leggja áherslu á að rétti vegurinn er mjög vandfundinn á milli þess annars vegar að verja samfélag okkar fyrir óprúttnu fólki sem er á ferðinni, við skulum ekki ganga að því gruflandi að slíkir einstaklingar eru á ferðinni í heiminum og hverju samfélagi ber að vera vakandi gagnvart þeim og verja sig gagnvart slíku fólki. En vegurinn er vandfundinn á milli þessa sjónarmiðs annars vegar og mannréttindanna hins vegar, þ.e. að standa vörð um réttindi þess fólk sem af mannréttindaástæðum eða vegna ofsókna heima fyrir hefur hrakist frá heimalandi sínu. Við eigum að taka alvarlegar ábendingar sem komu frá framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofunnar í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu að við stöndum ekki nægilega vel að verki, við höfum ekki farið að grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna hvað snertir hælisleitendur því að þeir hafa verið krafðir um skilríki sem þeir eðli máls hafa ekki haft undir höndum. Hins vegar legg ég á það áherslu að ég lít engan veginn á þetta sem eitthvert einfalt mál. Það geri ég alls ekki. Það þarf að finna þarna hinn gullna meðalveg, en ég tek undir sjónarmið þeirra hv. þm. sem hér hafa talað um mikilvægi þess að við verjum mannréttindin í hvívetna.

Við skoðun á þessu máli er að ýmsu að hyggja. Ég tek undir það sem kom m.a. fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um framsal sem er að finna í frv. í hendur framkvæmdarvaldinu, í hendur ráðherra. Að slíku þarf að hyggja við skoðun á þessum málum.

Ég ætla ekki að lýsa afstöðu minni að öðru leyti en fagna því að heildstæð löggjöf skuli verða sett. Nauðsynlegt er að fara mjög rækilega yfir þessi mál og leita til allra þeirra aðila sem láta sig þau varða og þá ekki síst mannréttindasamtakanna.