Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 12:25:46 (3435)

2000-12-15 12:25:46# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[12:25]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls um þetta frv. sem ég tel marka tímamót og eitt af mikilvægustu frv. á þessu þingi. Ég gat þess í framsögu minni að rétt væri að skoða frv. vel í hv. allshn. í ljósi athugasemda við það. Það þarf að vanda vel til þessarar lagasetningar sem í senn þarf að tryggja rétta framkvæmd á alþjóðlegum skuldbindingum okkar að því er varðar hælisleitendur og skilvirka og lipra stjórnsýslu í málefnum þeirra.

Í frv. er einnig reynt að stuðla að skilvirkri og lipurri stjórnsýslu hvað varðar dvalarleyfi til útlendinga sem hingað koma til búsetu um lengri eða skemmri tíma í því skyni að taka að sér störf í atvinnuvegum landsmanna, en þátttaka þeirra í atvinnulífinu stuðlar að aukinni velferð okkar allra.

Þess var getið í umræðum um málið í gær að frv. skorti ákvæði um atvinnuleyfi. Þar er um að ræða málefni sem heyrir undir félmrn. og því ekki á mínu færi að leggja til breytingar á því sviði. Ég á von á að hv. allshn. muni fjalla nánar um það atriði en ég vil geta þess að ágæt samvinna ríkir um útgáfu dvalarleyfa annars vegar og atvinnuleyfa hins vegar milli þeirra stjórnsýslustofnana sem í hlut eiga.

Svo ég víki að helstu atriðunum sem fram komu í máli hv. 6. þm. Suðurl. í gær þá sagði hann fyrst að svo virtist sem ekki hefði í neinu verið tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem komið hefði fram á fyrra frv. sem lagt var fram til kynningar. Þetta er misskilningur. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á frv., m.a. hefur heimildum til setningar reglugerða verið fækkað verulega. Slíkar heimildir er þó enn að finna í frv. enda er ekki viturlegt að lögfesta í smáatriðum allt sem viðkemur stjórnsýslu þeirri sem hér er um að ræða. Því er lagt til að öll meginatriði verði lögfest en ýmis útfærsluatriði sett með reglugerð. Sumir hv. þm. viku einmitt sérstaklega að þessum þætti málsins.

Ætlunin er ekki að marka í þessum lögum stefnu um hvernig eigi að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir vinnuafl. Þetta eru fyrst og fremst lög um réttindi erlendra ríkisborgara hér á landi en þar er um nokkra aðskilda hópa að ræða.

Stærsti hópurinn er fólk sem hingað kemur til starfa. Réttindin eru nokkuð misjöfn eftir því hvort um er að ræða Norðurlandabúa, aðra EES-borgara eða fólk frá ríkjum utan EES. Einnig er fjallað um umsóknir fólks sem hér sækir um hæli sem pólitískir flóttamenn í samræmi við þær alþjóðlegu reglur sem um það gilda en þar er um mun fámennari hóp að ræða.

Vilji menn stýra aðstreymi erlends vinnuafls er út af fyrir sig hægt að gera það með þeirri stefnu sem beitt er við útgáfu atvinnuleyfa á hverjum tíma. Um það efni mætti hafa lengra mál en málaflokkurinn er eins og áður segir í höndum hæstv. félmrh. Undirstofnun félmrn., Vinnumálastofnun, hefur málið á sinni könnu.

Ég vænti þess að hv. allshn. muni fjalla um athugasemdir hv. 6. þm. Suðurl. um einstakar greinar frv. Ég vil aðeins nefna stuttlega að athugasemdir hans við 11. gr. eru á nokkrum misskilningi byggðar. Ákvæði 10. gr. um að dvalarleyfi skuli aflað áður en komið er til landsins hefur um langt skeið verið meginregla hér sem og í nágrannaríkjunum þó veittar hafi verið undantekningar frá henni. Hér er lagt til að reglan verði lögfest ásamt þeim undantekningum sem heimilt er að gera frá henni.

[12:30]

Því hefur verið haldið fram að ráðherra væri í 11. gr. veitt of mikið vald með reglugerðarheimild en það er ekki tilgangurinn heldur er hugmyndin sú að settar séu liprar og sanngjarnar vinnureglur um veitingu dvalarleyfis þar sem stundum þarf að endurbæta reglurnar vegna breyttra aðstæðna og það þykir eðlilegra að það sé gert með reglugerð.

Varðandi 18. gr. þar sem fjallað er um brottvísun er einungis verið að gera reglurnar skýrar en í reynd er ekki verið að breyta því verklagi sem unnið er eftir, jafnt hér sem í nágrannaríkjunum. Ég vil benda á ítarlega greinargerð með ýmsum ákvæðum frv., sérstaklega um 18. gr. sem fjallað var um í ræðu hv. þm. Með leyfi virðulegs forseta, segir um þá grein:

,,Ákvæði greinarinnar taka mið af 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og 5. gr. Schengen-samningsins. Norræna samninginn ber þá að skoða með hliðsjón af viðauka við þann samning sem gerður var til að fullnægja skuldbindingum Norðurlandanna samkvæmt Schengen-samningnum þannig að ákvæði þessara tveggja samninga rekist ekki á.``

Hv. þm. nefndi sérstaklega d-lið 18. gr. Á bls. 47 í frv. segir:

,,Samkvæmt d-lið er heimilt að vísa frá landi þeim sem ekki getur sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar, sbr. og c-lið 1. mgr. 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins og c-lið 1. mgr. 5. gr. Schengen-samningsins.``

Þá voru nokkrir þingmenn sem viku sérstaklega að g-lið 18. gr. en í athugasemdum segir:

,,Samkvæmt g-lið er heimilt að vísa frá landi útlendingi ef hann að mati þar til bærs heilbrigðisstarfsmanns er augljóslega haldinn alvarlegum geðtruflunum. Ákvæðinu er ætlað að ná til þeirra sem ekki geta ráðið persónulegum högum sínum sjálfir meðan á dvöl hér stendur og/eða geta með framkomu sinni valdið sér eða öðrum tjóni.``

Þetta er eins konar varúðarákvæði sem hér er sett inn og þarf auðvitað að meta sérstaklega í hverju tilviki og það er alveg hárrétt að slíkt ákvæði er vandmeðfarið.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir fjallaði sérstaklega um 29. gr. og það ákvæði hennar sem snýr að DNA-sýnum og um það atriði segir í greinargerð með frv.:

,,Með 4. mgr. er lögreglunni veitt heimild til að taka ljósmyndir og fingraför og rannsaka erfðaefni útlendings. Þau tilvik þar sem heimild þessi gildir eru tilgreind nánar í fjórum liðum.`` Og síðan er það talið upp ítarlega. Um þetta er að segja að farið er að nota erfðaefni mjög mikið í ýmsum tilvikum eins og við vitum, í vísindalegum tilgangi og einnig til að sanna ýmsa þætti, m.a. hver viðkomandi aðili er. Ég hef fullan hug á að kanna hvort Ísland geti ekki komið upp sérstökum DNA-banka m.a. til nota fyrir löggæsluna og ég bendi hv. þingmönnum á að búið er að koma upp slíkum banka alls staðar í löndunum í kringum okkur. Ég tel að það sé mjög mikilvægt mál. En allt þetta er vissulega mjög vandmeðfarið. Það er alveg rétt.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vék sérstaklega að Dyflinnarsamningnum í ræðu sinni og fleiri hv. þm. gerðu það raunar, hv. þm. Jónína Bjartmarz, en það hefur verið gagnrýnt að verið sé að vísa til Dyflinnarsamningsins sem ekki sé enn lögfestur. Málið er þannig til komið að samningnum um aðild Íslands og Noregs að þessum samningi er lokið og í lok síðasta mánaðar settu sendiherrar ríkjanna ásamt fulltrúa ESB upphafsstafi sína undir samkomulag þar að lútandi. Andstætt væntingum mínum hafa tafir orðið á þýðingum á samkomulaginu en reiknað er með að samningurinn verði formlega undirritaður á næstu dögum. Þá verður undirbúin till. til þál. um staðfestingu samningsins sem lögð verður fyrir þingið en héðan af verður það ekki fyrr en þing kemur saman eftir áramót.

Aðild að Dyflinnarsamningnum hefur alla tíð verið ein af forsendum Schengen-þátttökunnar af hálfu Íslendinga og Norðmanna en hann kveður m.a. á um hvar skuli úrskurða um beiðni hælisleitenda.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ræddi sérstaklega um Dyflinnarsamninginn eins og ég sagði áðan en honum er auðvitað fyrst og fremst ætlað að kveða á um hvar skuli ákvarða stöðu flóttamanna. Hér er um að ræða viðbrögð við þeirri stöðu að á Schengen-svæðinu er för manna auðveldari milli ríkja og það væri ekki viðunandi ef menn gætu gengið hringinn og leitað hælis í næstu Schengen-ríkjum eftir að hafa fengið synjun í öðrum. Rétt er að skýra þetta nánar í hv. allshn. en með aðild okkar að Dyflinnarsamningnum er ekki verið að fría okkur við flóttamönnum og hv. þm. Jónína Bjartmarz skýrði þetta einmitt ágætlega í ræðu sinni áðan.

Varðandi íslenskukunnáttu sem spurt var um, þá beindi ég því til allshn. í framsögu minni að athuga það mál sérstaklega og hvernig framkvæmd væri best háttað í því máli.

Loks vil ég nefna ábendingu um kennslu og þjálfun starfsmanna, sem fram kom í ræðu hv. 6. þm. Suðurl. og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi einnig sérstaklega, og upplýsa það að á þessu ári hefur einmitt verið gert mikið átak í því og var Lögregluskóla ríkisins falin sú framkvæmd. Ég er ekki í vafa um að þetta átak mun stórbæta öll fagleg vinnubrögð við landamæraeftirlit hér á landi.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að ítreka þá tillögu að frv. verði vísað til allshn. þar sem ég veit að það fær vandaða meðferð og farið verður yfir ýmsar þær athugasemdir sem hér hafa komið fram í ræðum hv. þm.