Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:17:16 (3445)

2000-12-15 16:17:16# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð að játa að þessi niðurstaða samkeppnisráðs kom mér á óvart og þá dreg ég dæmin af því sem á undan hefur gengið um afstöðu þess ráðs til að mynda til samþjöppunar í smásöluverslun á höfuðborgarsvæðinu. En að því er gætandi að hér eru nýgengin í gildi lög og það meira að segja í þessum mánuði þar sem enn var hert á því að koma í veg fyrir að fákeppnisstaða komi upp eins og talið er að nú þegar einkenni íslenskan fjármálamarkað.

Þessi dómur er án tvímæla. Hann tekur til þess í niðurstöðunni að samruni þessara tveggja banka leiði til markaðsráðandi stöðu og raski samkeppni á öllum aðalsviðum bankastarfsemi, hvorki meira né minna. Þessum dómi verður ekkert áfrýjað og þess vegna er lokið þeim kafla þar sem menn unnu að sameiningu þessara tveggja fyrirtækja.

Ég verð að segja að enda þótt ég dragi við mig að fagna sérstaklega þessari niðurstöðu, þá var þetta góður dómur úr því sem komið er. Sá sem hér stendur var gagnrýndur fyrir það á dögunum af hæstv. viðskrh. að honum hefði snúist hugur varðandi sameiningu bankanna. Þetta er eins og að gagnrýna mann sem gengur inn í verslun til þess að kaupa sér vöru og hann hættir við það af því að hann sér að vörunni hefur verið spillt í meðferð eins og gerðist í þessu máli.

Það voru tvö höfuðatriði sem sátu á hakanum og menn virtust ekki skeyta um í sambandi við undirbúning að bankasamrunanum og það var að semja við starfsfólkið og síðan í framhaldi af því að gera sjálfum viðskiptavinunum til góða en leið allra slíkra samninga til viðskiptavinanna eða til þess að gera þeim til góða liggur í gegnum starfsfólkið. Þess vegna álít ég að með þeim áformum sem uppi voru og þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið væri verið að gildra til þess að stórkostlegt tjón væri unnið á fjárhagi þessara fyrirtækja, enda er enginn vafi á því og ég trúi að menn geti út af fyrir sig samþykkt það að þarna hefði orðið við samrunann um verulega mikið fjárhagstjón að tefla, fjárhagstjón skattborgaranna í landinu. Og það tók svo steininn úr afskipti hæstv. ráðherra, þegar hæstv. ráðherra hóf atlögu sína að Búnaðarbanka Íslands og hafði í hótunum um að setja frá, enda þótt lög stæðu ekki til þess, yfirstjórn bankans, bankaráð og bankastjórn. Allt þetta, slík vinnubrögð eins og þessi bera í skauti sér mikla ógæfu fyrir svo vandasamt verk sem þarna var verið að vinna að.

Hvað tekur nú við? Ég hef verið þeirrar skoðunar og hef ekki breytt um skoðun að hið opinbera eigi ekki að vera að vasast í rekstri banka og helst engum fyrirtækjum, allra síst bönkum. Þetta er orðið fágætt fyrirbrigði um öll þjóðlönd að hið opinbera hafi hendur í bagga með rekstri banka, enda þekkjum við í gegnum áraraðir hvernig til hefur tekist án þess að hér sé tími til þess að rifja það upp.

En auðvitað er hæstv. ríkisstjórn illa sett að þessu leyti. Þeir eru búnir að semja og skipta í fjöru, á Landssímanum öðrum megin og þessum sameinaða banka hinum megin, og meira að segja hefur Framsfl. borgað á sig með netinu sem þeir voru þó ákveðnir í að vera í móti. En sjálfsagt má vera að svo fljótt sem við verður komið verði haldið áfram einkavæðingu þessara tveggja fyrirtækja.