Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:32:30 (3449)

2000-12-15 16:32:30# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Oft hefur verið tekið djúpt í árinni í umræðu um hugsanlega sameiningu ríkisbankanna, sameiningu áður en þeir yrðu síðan settir á söluskrá. Enginn hefur þó tekið dýpra í árinni en hæstv. viðskrh. sem hefur látið fara frá sér ummæli sem vart eru sæmandi gagnvart þeim aðilum innan bankanna og þó einkum Búnaðarbankans sem hafa verið fengnir til að annast tæknilegar hliðar þessara samningaviðræðna. Auðvitað eiga lýðræðislega kjörnir fulltrúar að taka ákvörðun um framtíð ríkisbankanna en þá þarf líka að standa lýðræðislega að verki. Í fyrsta lagi gagnvart Alþingi. Hér þarf að fara fram umræða á öllum stigum máls um stöðu og framtíð þessara mála.

Í öðru lagi þarf að virða þá aðila sem eru fengnir til þess þekkingar sinnar vegna að annast tæknilegar útfærslur. Það var ekki gert og tilraun var gerð til þess að víkja þeim aðilum til hliðar. Þjóðin varð vitni að því í fjölmiðlum þegar hæstv. viðskrh. hafði í frammi slík vinnubrögð. Ef þetta gerist er hætt við því að ekki sé staðið faglega að verki.

Nú hefur það fengist staðfest með úrskurði Samkeppnisstofnunar að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu voru ekki fagleg. Þau standast ekki þau lög og þær reglur sem við höfum sett okkur. Þess vegna er þetta sigur faglegra vinnubragða og ég held að okkur beri öllum að taka ofan fyrir Samkeppnisstofnun, stofnun sem ég hef þó ekki alltaf verið sáttur við en er það svo vissulega í þessu máli.