Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:39:15 (3452)

2000-12-15 16:39:15# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að sýna geðillsku hæstv. forsrh. umburðarlyndi og skilning nú þegar ríkisstjórn hans hefur magalent í þessu máli. Með þessum úrskurði hefur sameining Landsbankans og Búnaðarbankans verið skotin í kaf og hér er um rökréttan úrskurð að ræða, bæði í ljósi samkeppnislaga og fyrri úrskurðar Samkeppnisstofnunar um samruna Íslandsbanka og Fjárfestingarbankans. Ég tel að Samkeppnisstofnun hafi sannað gildi sitt og hve mikla þýðingu hún hefur til að koma í veg fyrir samþjöppun valds og fákeppni og einokun í þjóðfélaginu og að stofnunin standi sterkari á eftir.

Ég fagna mjög þessari niðurstöðu því að við höfum á umliðnum missirum verið að sjá aukna samþjöppun valds og fjármagns í þjóðfélaginu, hjá tryggingafélögunum, hjá olíufélögunum, í flutningastarfsemi og á matvælamarkaði og nú sjáum við loksins öfluga viðspyrnu gegn slíkri samþjöppun, fákeppni og einokun í atvinnulífinu sem er andsnúin neytendum og þjóðarhag. Vonandi hefur hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. fengið nauðsynlega lexíu af þessu frumhlaupi og óðagoti sem þegar hefur gengisfellt þessar eignir þjóðarinnar um á annan tug milljarða kr. Þessi úrskurður er góð jólagjöf til þjóðarinnar og sigur fyrir lýðræðið í landinu. Ég óska þjóðinni til hamingju með þennan úrskurð.