Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:42:50 (3454)

2000-12-15 16:42:50# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta álit samkeppnisráðs sé ekki áfall fyrir ríkisstjórnina eða viðskrh. heldur fyrir viðskiptalífið í landinu. Þetta álit er ótrúlega óvandað miðað við þann tíma sem samkeppnisráð hefur tekið sér til verksins. Hlustum á setningar:

,,Samkeppnisráð telur að líta beri á innlán hjá bönkum sem sérstakan markað, óháðan öðrum sparnaðarformum eins og t.d. verðbréfum.`` Þetta lýsir órúlegri vanþekkingu á markaðnum.

Síðan kemur: ,,Þá fellst ráðið ekki á þau rök álitsbeiðenda að líta beri á hlaupareikninga (t.d. tékkareikninga) sem eitt form greiðslumiðlunar, fremur en form innlána.`` Það er eins og þessir menn þekki ekki debetkort.

Svo kemur hérna: ,,Samkeppnisráð telur ekki að staðhæfingar Landsbankans og Búnaðarbankans varðandi hugsanlega hagræðingu geti haft áhrif á mat ráðsins á fyrirhuguðum samruna.`` Það er eins og þessir menn hafi ekki hlustað á umræður um að segja upp 300 manns við að fækka útibúum í fjöldatali.

Síðan skulum við halda áfram: ,,Að mati samkeppnisráðs verða núverandi keppinautar ekki færir um að veita hinum sameinaða banka nægjanlegt samkeppnislegt aðhald.`` Málið snýst um að verið er að leggja núna hömlur á Landsbankann og Búnaðarbankann að veita Íslandsbanka-FBA samkeppni. Síðan kemur: ,,Ósennilegt er að nýir keppinautar geti dregið úr þessum skaðlegu afleiðingum hins fyrirhugaða samruna þar sem aðgangshindranir eru að bankamörkuðum.`` Það eru nákvæmlega engar aðgangstakmarkanir að þessum mörkuðum. En úr því sem komið er þá tel ég að selja þurfi Landsbankann og Búnaðarbankann sem fyrst þannig að þessi fyrirtæki fái möguleika til að keppa á þessum markaði.