Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:47:14 (3456)

2000-12-15 16:47:14# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Sá úrskurður sem hér hefur verið birtur sætir tíðindum og mun áreiðanlega hafa mikil áhrif á samruna fyrirtækja væntanlega í framtíðinni. Hér erum við að ganga til móts við nýja tíma. Hlutverk stofnana á borð við Samkeppnisstofnun er að vaxa og styrkjast og það sem hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnin gerðu einfaldlega var að vísa málinu til stofnunarinnar vegna þess að efasemdir voru um að þetta mál gengi fram af samkeppnisástæðum miðað við ný ákvæði samkeppnislaga sem hafa nýlega tekið gildi og ég spyr: Hver setti þau ákvæði? Var það hv. formaður Samfylkingarinnar sem setti þau? Ég held ekki.

Talað hefur verið um að lýðræðið hafi sigrað og neytendur hafi sigrað og það er vegna þeirrar niðurstöðu sem nú er fengin. Þeir hafa sigrað, ég get tekið undir það, vegna þess að faglega var unnið að þessu máli. Og hver var það sem lagði þetta mál fyrir og vann þennan sigur fyrir lýðræðið og fyrir neytendur sem stjórnarandstaðan lofar og prísar? Var það ekki hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnin sem lagði þetta fyrir þannig að þessi mikli sigur vannst fyrir lýðræðið og fyrir neytendur í landinu? Ég sé ekki betur en svo sé. Það hefur verið unnið faglega að þessu máli en ég hygg að það muni vekja upp miklar umræður í samfélaginu um framhaldið og það er allt annað mál.