Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:58:17 (3461)

2000-12-15 16:58:17# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu en verð þó að segja að mér finnst margt af því sem fram hefur komið hjá hv. talsmönnum stjórnarandstöðunnar þeim varla samboðið. Það er útlátalítið að hafa yfir stór orð en rökstyðja þarf stóru orðin og það hafa hv. þm. því miður ekki gert, mjög margir.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór hér mikinn og hann talaði í fyrsta lagi um hneykslanlega framkomu, í öðru lagi að sú sem hér stendur hafi gefið sér niðurstöðuna, hann talar um feigðarflan og hann talar um að farið hafi verið á svig við samkeppnislög. En síðan segir hann að þetta sé sigur fyrir neytendur og lýðræðið í landinu. Sem sagt aðferð mín er sigur fyrir neytendur í landinu og fyrir lýðræðið. Ég held því að hv. þm. megi vera mjög hamingjusamur og við öll. Ég er hamingjusöm vegna þess að ég fór þessa leið sem ég var sannfærð um að væri rétt.

Nú liggur niðurstaðan fyrir. Hún er svona og hún er samkvæmt lögum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hjakkaði dálítið í sama farinu en hann segir að það sé staðfest að vinnubrögðin séu ekki fagleg. (Gripið fram í.) Hann segir að vinnubrögðin séu fagleg ... (Gripið fram í: Það er von að þú ruglist í þessu.) séu ekki fagleg, þetta er svo ruglingslegt, séu ekki fagleg með úrskurði samkeppnisráðs.

Ég held að hv. þm. ætti að fara í tíma hjá formanni sínum, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, vegna þess að miðað við orð hans hér setti hann einn lögin um samkeppni á Alþingi. Það er nefnilega þannig að þar er ákvæði um forúrskurð. Til hvers var þetta ákvæði um forúrskurð sett í lög ef hugmyndin var ekki sú að nota ákvæðið? Það var notað í þessu tilfelli, í þessu stóra tilfelli þegar hugmynd kom upp um að sameina bankana. Niðurstaðan er þessi og við hlítum að sjálfsögðu þeirri niðurstöðu.