Fjáröflun til vegagerðar

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 11:02:09 (3474)

2000-12-16 11:02:09# 126. lþ. 51.10 fundur 283. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (þungaskattur) frv. 165/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[11:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Meginbreytingin sem það felur í sér er að kílómetragjald þungaskatts er lækkað um 10%. Það er komið til vegna þess að á undanförnum mánuðum hefur orðið mikil breyting á olíuverði. Heimsmarkaðsverð á dísilolíu hefur hækkað verulega og hefur það skilað sér í hærra útsöluverði á olíu hér á landi. Frá því í október árið 1999 til október í ár hefur verðið hækkað um 30% eða úr 38 kr. í 58 kr. Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til umtalsverðs kostnaðarauka fyrir fyrirtæki sem gera út dísilbifreiðar og menn eru að bregðast við þessu með þessari lagabreytingu.

Segja má að skattur á eldsneyti sé í eðli sínu umhverfisvænn vegna þess að eldsneytisbrennsla er mengandi. En eldsneyti notum við til að knýja áfram skipin og bifreiðarnar og bifreiðarnar notum við til að flytja fólk og flytja vörur. Þarna þarf að finna einhvern milliveg og teljum við að hann sé fundinn með þessari breytingu.

Ég vek athygli á því að þegar breytingar voru gerðar á þessum lögum fyrir nokkrum mánuðum var um það rætt í efh.- og viðskn. að lagt yrði til að setja á fót nefnd sem endurskoðaði þessa skattlagningu í heild sinni. Það sjónarmið hefur verið nokkuð ríkjandi innan efh.- og viðskn. og mjög eindregið af hálfu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að það eigi að skoða þann kost sérstaklega að taka upp olíugjald vegna þess að olíugjaldið er umhverfisvænt. Það hvetur fyrirtækin og einstaklingana til þess að spara eldsneytið. Í stað þess að það skipti máli hve marga kílómetra ekið er skiptir máli hve mikið eldsneyti er notað. Þetta er því líklegt til þess að menn reyni að leita að orkusparneytnum farkostum. Eftir því sem mér er tjáð er þessi nefnd nú að störfum. Fjmrn. tók vel tilmælum efh.- og viðskn. þingsins og sett var á fót nefnd sem er að skoða olíugjaldið og samkvæmt þeim fréttum sem ég hef mun hún að öllum líkindum skila áliti snemma á næsta ári eða í marsmánuði. Það held ég að séu áformin hvað þetta snertir.

Að lokum vil ég segja að ég stend að brtt. sem felur það í sér að strætisvagnar verði undanþegnir þessum skatti. Það hefði ekki í för með sér mikið tekjutap fyrir ríkissjóð en gæti skipt verulegu máli fyrir almannasamgöngurnar sem ber að styrkja í hvívetna.