Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 11:18:10 (3477)

2000-12-16 11:18:10# 126. lþ. 51.2 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, MF (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[11:18]

Margrét Frímannsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í minni hluta efh.- og viðskn. höfum mótmælt eindregið þeim breytingum sem eru lagðar til í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í raun má segja að Alþingi hafi samþykkt hluta af þessum breytingum við afgreiðslu á fjárlögum og þar kom þessi afstaða okkar í minni hlutanum líka skýrt fram.

Ég tek undir þau orð að alvarlegt er að skerða eins og lagt er til þá fjármuni sem eiga að fara til endurbóta á menningarhúsnæði. En við áteljum enn harðar þá skerðingu sem felst í framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra þar sem er verið að leggja af lög um erfðafjárskatt og þá möguleika sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hafði á tekjum þar frá. Við hefðum viljað bíða með allar frekari breytingar þangað til búið væri að ganga endanlega frá samningum við sveitarfélögin um yfirfærslu þessa málaflokks og að þá hefðu verið skoðaðir allir þeir möguleikar sem sveitarfélögin hefðu á tekjum til að sinna honum vel.