Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:07:52 (3482)

2000-12-16 13:07:52# 126. lþ. 51.11 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[13:07]

Frsm. meiri hluta (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í vor afgreiddum við frv. til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti. Í því frv. var gert ráð fyrir heimildum til reglugerðarsetninga um innherjaviðskipti og útboð. Í meðförum nefndarinnar var það tekið út en gert ráð fyrir því að frv. sem er til umfjöllunar kæmi fram.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælti mjög hart gegn því að taka út þessar reglugerðarheimildir á sínum tíma. Hún vildi að ráðherra einn hefði vald til að setja reglur um innherjaviðskipti og um útboð. Sá sem hér stendur taldi hins vegar ekki eðlilegt að þingið afsalaði sér svo miklum völdum í hendur ráðherra. Sá skilningur var síðan staðfestur í dómi sem hv. þm. vitnaði til í ræðu sinni.

Og nú vil ég spyrja hv. þm.: Telur hv. þm. enn þá að það hefði átt að ganga frá þessum málum með reglugerð? Hefði það ekki verið fullmikill losarabragur og óvönduð vinnubrögð að mati hv. þm.?

Í annan stað vil ég gagnrýna hv. þm. fyrir ummæli hennar um vinnubrögð í þessu máli. Ég tel til fyrirmyndar að hagsmunaaðilar, eftirlitsaðilar og ráðuneytið vinni saman að setningu þessara leikreglna. Ég tel að það sé öllum í hag að þær séu sem bestar. Markaðurinn sjálfur og allir aðilar þar þurfa á því að halda að markaðurinn sé traustur.