Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:31:36 (3486)

2000-12-16 13:31:36# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Verkfall framhaldsskólakennara sem hófst á miðnætti þann 7. nóv. hefur nú staðið í sex vikur og allan þann tíma hefur nám þeirra ungmenna sem við erum að búa undir lífið á viðkvæmasta aldri í framhaldsskólum landsins legið niðri. Nú er sýnt að ekki verður um neinar útskriftir að ræða fyrir jól. Önnin er ónýt hjá þeim sem eru í annaskiptu námi í fjölbrautaskólunum. Þeir sem voru að undirbúa sig undir að taka lokapróf úr framhaldsskóla og sumir búnir að leggja mikið á sig til að hraða námi til að geta hafið framhaldsnám sem allra fyrst eru sviptir þeim möguleika að sinni.

Og það eru ekki bara einstaklingarnir sem hafa orðið fyrir óbætanlegu tjóni. Þjóðfélagið sem sárlega þarf á því að halda að fleiri útskrifist með einhvers konar próf úr framhaldsskóla hefur orðið fyrir skelli því að það er næsta víst að við þessar aðstæður verður erfitt að kalla alla þá aftur til náms sem urðu frá að hverfa þann 7. nóv. sl.

Og nú loks eftir að hafa þumbast við mánuðum saman virðist hæstv. ríkisstjórn sem auðvitað ber höfuðábyrgð á þessu verkfalli, vera farin að átta sig á alvöru málsins. Samningaviðræður eru farnar að skila einhverjum árangri þó hægt miði og enn vanti fjármagn til að tryggja þá upphafshækkun sem kennarar geta sætt sig við, auk þess sem enn gengur hægt að fá ríkið til að skilja að skólarnir þurfa að geta brugðist við breytingum sem gert var ráð fyrir í nýrri námskrá og hæstv. menntmrh. kynnti með miklum vængjaslætti um allt land fyrir nokkrum missirum.

Til þess að geta brugðist við þessum breytingum þarf aukið fjármagn og það virðist ekki hafa verið út í það hugsað í aðdraganda þeirra kerfisbreytinga sem boðaðar voru. Þar að auki þarf ríkið, ef það vill semja til langs tíma, að tryggja einhverja þá viðmiðun sem getur tryggt kaupmátt launa hjá framhaldsskólakennurum. Hæstv. forseti. Mér finnst samkvæmt reynslu minni sem samninganefndarmaður fyrir kennara að þarna sé nú loksins að hilla undir þann samningsflöt sem mér fannst þegar á liðnu ári, er ég fór að fylgjast með þessari kjaradeilu, ég sjá móta fyrir að yrði að lenda þessari kjaradeilu á. Fyrir meira en ári lá fyrir sá ásetningur framhaldsskólakennara að fá laun sín metin með tilliti til þeirrar kjaraþróunar sem hafði orðið hjá öðrum háskólamönnum í þjónustu ríkisins, einkum vegna svonefndra framgangs- og aðlögunarkjarasamninga.

Allir sem eitthvað hafa fylgst með stöðu framhaldsskólans hafa skilið að mikill og vaxandi vandi hefur verið á undanförnum árum vegna kennaraskorts, sérstaklega í nokkrum raungreinum, sem gerir það að verkum að til að halda skólanum gangandi þurfa kennarar að kenna miklu meiri yfirvinnu en góðu hófi gegnir, en þeir hafa gert þetta til að bjarga skólastarfinu. Launakjörin hafa verið þannig að varla neitt ungt fólk velur sér nú framhaldsskólakennslu að atvinnu. Þessi mikla yfirvinna hefur nú verið notuð gegn kennurum í þessari kjaradeilu og talað um meðalheildarlaun stéttarinnar undir þessari miklu spennu sem eitthvað sem allir kennarar njóti, en því fer auðvitað fjarri.

Hæstv. forseti. Nú þegar hillir undir lausn í þessari kjaradeilu sem auðvitað hefði þurft að liggja fyrir fyrir löngu, hlýt ég því að ásaka ríkisstjórnina harðlega fyrir það áhugaleysi sem hún hefur sýnt viðgangi menntunar í landinu og velferð ungs fólks með því að leita ekki skynsamlegrar lausnar í þessari deilu áður en þetta langa og harðvítuga verkfall skall á. Að lokum við ég skora á hæstv. ríkisstjórn að sjá sóma sinn í því að gera nú þegar lokahnykk í þessu máli svo að takast megi að undirrita kjarasamninga fyrir jól og létta þar með af þeirri þrúgandi óvissu sem hefur leitt af þessu máli fyrir skólaæsku landsins og ekki síst þá kennara sem í hlut eiga. Vel menntaðir og góðir kennarar eru þjóðinni verðmætur lykill að velferð íslensks æskufólks og þeir eiga skilið að þeirra störfum sé sómi sýndur.