Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:36:27 (3487)

2000-12-16 13:36:27# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er rétt hjá málshefjanda að þetta verkfall hefur senn staðið í sex vikur nemendunum til mjög mikils tjóns. En því má heldur ekki gleyma hverjir boðuðu verkfallið og gerðu það nánast fyrirvaralaust um leið og kjarasamningar voru fallnir úr gildi, viku síðar, áður en formlegar kröfur voru lagðar fram meira að segja.

En það skiptir nú ekki öllu máli úr þessu. Aðalatriðið núna er að sjálfsögðu að reyna að fá botn í þessa deilu, leysa hana með viðunandi hætti fyrir kennarana, fyrir ríkisvaldið, en síðast en ekki síst fyrir nemendur.

Ég hygg að báðir deiluaðilar hafi að undanförnu lagt mjög mikla vinnu í að undirbúa hinn endanlega samning sem auðvitað kemur, hvort sem það gerist núna á næstu dögum eða eitthvað síðar. Ég held, eins og ég hef áður sagt, að hægt sé að ljúka þessari deilu á stuttum tíma ef menn einsetja sér það. En ef það verður ekki gert núna á næstu sólarhringum er ljóst að það verður úr þessu ekki fyrr en í janúar.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um skipulagsmál í kennslunni held ég að þær hugmyndir sem fram hafa komið frá Verslunarskóla Íslands sýni í raun hvað hægt er að flytja mikið milli einstakra liða innan heildarlaunasummunnar og hvað raunverulega er hægt að ganga langt í því efni, hvað þarna er mikið svigrúm. Ég er ekki að segja að tillögur eða hugmyndir Verslunarskólans henti endilega fyrir alla aðra framhaldsskóla, en þær undirstrika þau aðalatriði sem við höfum talið vera í þessari deilu, sem sagt nauðsyn þess að gera skipulagsbreytingar í skólastarfinu og auka sveigjanleikann sem þar er fyrir hendi og auka möguleika skólastjórnendanna á að skipuleggja störf sín, þar á meðal vinnutíma kennaranna.

Ég held að hægt sé að leysa þetta mál á þeim grundvelli sem við lögðum upphaflega til þegar verkfallið hófst sem byggðist á því að breyta skipulagi í þessari starfsemi. Þar liggur lausn málsins og hugmyndir Verslunarskólans undirstrika þetta atriði, hvort svo sem niðurstaðan gengur jafnlangt á endanum og þar er nú lagt til.

Ég tel að þetta verkfall hafi verið mjög skaðlegt. Ég tel að það hafi skaðað málstað kennaranna. Það hefur ekki greitt fyrir niðurstöðu og ég er alveg viss um að niðurstaðan á endanum verður sú að út úr þessu kemur fyrir kennarana ekkert annað en það sem þeir hefðu getað fengið án verkfallsins. Hverjir borga þennan herkostnað? Það eru nemendurnir í skólunum. Það þarf ekkert að segja mér hvernig það gengur fyrir sig. Við í þessum sal sem eigum börn á þessum aldri erum meira og minna öll foreldrar framhaldsskólanemenda. Það þarf ekkert að setja sig í einhverjar stellingar gagnvart okkur varðandi þau atriði. Nemendurnir bera herkostnaðinn og tapa á þessu. Verkfallið mun að mínum dómi ekki færa þeim sem það boðuðu neinar kjarabætur umfram það sem hefði mátt vænta ella og ég tel reyndar að það hafi verið alveg hörmulega rangt mat á aðstæðum í þjóðfélaginu og á umhverfinu í þjóðfélaginu, miðað við efnahagsmálin, að stefna kennurunum í þetta langa verkfall. Ég tel að það hafi verið hörmulega skakkt mat hjá þeim sem höfðu um það forustu að hefja þetta verkfall á þeim tíma sem hafið var, fyrstir allra ríkisstarfsmanna sem þurfa að semja í þessari lotu.

Þetta er mitt viðhorf í þessu máli, herra forseti. Ég tel að hægt sé að leysa þetta tiltölulega hratt ef menn einsetja sér það. Ef það verður ekki gert núna mjög fljótlega er hætt við því að það dragist fram yfir áramót sem er náttúrlega enn verra, ekki síst fyrir þá sem tapa laununum sínum í þessu verkfalli.