Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:43:24 (3489)

2000-12-16 13:43:24# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Eftir sex vikna verkfall stefnir í að heil önn í íslenskum framhaldsskólum fari til spillis. Það mun hafa bæði skaðleg og langvarandi áhrif á íslenskt þjóðfélag. Á sama tíma virðast grunnskólakennarar á farsælli leið í samningaferli sínu við forsvarsmenn sveitarfélaga þar sem báðir aðilar nálgast metnaðarfull markmið um skólastarf, byggð á sameiginlegri yfirlýsingu launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Herra forseti. Hljóta ekki allir aðilar í verkfallsdeilu framhaldsskólanna að geta tamið sér eitthvað jákvætt úr vinnubrögðum grunnskóla og sveitarstjórnarmanna? Ég hvet aðila til þess að líta til þess ferlis.

Á aðalfundi Landssamtakanna Heimilis og skóla, sem eru samtök foreldra barna í grunn- og framhaldsskólum, laugardaginn 9. des. sl. var samþykkt svohljóðandi ályktun, með leyfi herra forseta:

,,Verkfallið lýsir óforsvaranlegu tómlæti og virðingarleysi gagnvart menntun, nemendum og námi þeirra. Sjálfsmynd nemenda hefur beðið tjón sem seint verður bætt. Veruleg hætta er á að vegna verkfallsins fjölgi þeim enn sem hætta námi. Það hefur í för með sér slæmar félags- og fjárhagslegar afleiðingar fyrir nemendurna, fjölskyldur þeirra og þjóðfélagið í heild.

Virðingu fyrir starfi kennara verður að efla. Bætt launakjör eru einn þáttur í því. Þau eru og ein forsenda þess að í bráð og lengd verði skólar samkeppnishæfir við aðra vinnustaði og hægt sé að manna skólana því hæfa og vel menntaða fólki sem nemendum ber og menntakerfið þarfnast.

Önnur forsenda aukinnar virðingar og viðurkenningar er sýnilegur vinnutími kennara og gegnsætt launakerfi. Trúnaðarstörfum jafnt í pólitík sem í stéttarfélögum fylgir ábyrgð sem við gerum kröfu til að þeir axli er gegna.``

Undir þetta tek ég, herra forseti.