Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:50:40 (3493)

2000-12-16 13:50:40# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér dró til tíðinda. Í þetta sinn var það hv. þm. Tómas Ingi Olrich sem kom upp fyrir hönd Sjálfstfl. og kvartaði undan því að verkfallið í framhaldsskólunum skyldi vera rætt á Alþingi en ekki hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sem hefur verið í því hlutverki hingað til. En Sjálfstfl. klikkaði að sjálfsögðu ekki á því grundvallaratriði að kvarta undan því að þetta ástand í framhaldsskólum landsins skuli vera rætt á Alþingi. Það finnst þeim mikill óþarfi.

Herra forseti. Það er ömurlegt til þess að hugsa ef árið kveður og öldin kveður við þær aðstæður að framhaldsskólastarf í landinu er í rúst og enn verður ekki vart mikilla tilburða eða mikils áhuga hjá hæstv. ríkisstjórn að leysa þetta mál. Hæstv. fjmrh. notaði því miður enn einu sinni tækifærið úr ræðustól á Alþingi og ónotaðist út í viðsemjendur sína. Er nú ekki búið að ræða það áður hversu gáfulegt það er í viðkvæmri kjaradeilu að annar málsaðilinn sé sífellt að grípa tækifærið á vettvangi þar sem hinn er ekki til staðar og ónotast út í viðsemjendur sína? Hvaða tilgangi á það að þjóna? Segir þessi framganga ráðherra ríkisstjórnarinnar ekki allt sem segja þarf um hvaða andrúmsloft hefur verið í þessari deilu af þeirra hálfu? Er ekki fjarvera hæstv. menntmrh. frá umræðunum, sem ekki er með fjarvistarleyfi samkvæmt fjarvistarskrá, algjörlega dæmigerð? Hæstv. menntmrh. er til staðar þegar eitthvað jákvætt er að gerast í skólastarfinu, það vantar ekki, þegar verið er að tilkynna nýjar námskrár eða taka skóflustungur eða eitthvað því um líkt. En hann gufar ævinlega upp þegar einhver vandamál ber að garði og þá kemur honum þetta meira og minna ekkert við.

Grunnskólinn kemur honum ekki við af því að hann er hjá sveitarfélögunum og framhaldsskólinn, a.m.k. kjaramálin, koma honum ekki við af því að þau eru hjá fjmrh. Þetta er loddaraleikur, herra forseti.

Staðreyndin er sú að laun framhaldsskólakennara hafa dregist aftur úr launum sambærilegra stétta. Flótti er úr greininni og það stefnir í bullandi kennaraskort á komandi árum ef svo heldur fram sem horfir. Úr þessu verður að bæta, herra forseti.